Starfskjarastefna
Starfskjarastefna fyrir Nýjan Landspítala ohf.
- Tilgangur
Starfskjarastefna Nýs Landspítala ohf. (NLSH) er sett samkvæmt 79. gr. a. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, sbr. 3 gr. laga nr. 89/2006, og byggir hún á meginreglum sem gilda um góða stjórnarhætti fyrirtækja, almenna eigendastefnu ríkisins, langtímahagsmunum félagsins og hámörkun arðsemi fyrir hluthafa félagsins.
Markmið NLSH er að gera starf hjá félaginu að eftirsóknarverðum kosti fyrir starfsfólk og þar með tryggja félaginu stöðu í fremstu röð. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að stjórn félagsins hafi heimild til að bjóða laun og aðrar greiðslur sem tíðkast hjá sambærilegum opinberum hlutafélögum. Laun hjá félaginu eiga að vera samkeppnishæf, en hófleg og ekki leiðandi.
Með starfskjarastefnu þessari vill félagið tryggja að þessum markmiðum verði náð auk þess að veita hluthöfum aukin áhrif yfir og innsýn í stefnu félagsins varðandi starfskjör stjórnenda og stjórnarmanna.
- Kjör stjórnarmanna
Stjórnarmenn skulu fá greidda fasta mánaðarlega þóknun fyrir störf sín. Þóknun stjórnarmanna og varamanna þeirra skal ákveðin á aðalfundi ár hvert svo sem kveðið er á um í 79. gr. a. laga um hlutafélög. Gerir stjórnin tillögu um stjórnarlaun fyrir komandi starfsár til hluthafa fyrir aðalfund og skal í þeim efnum taka mið af þeirri ábyrgð sem á stjórnarmönnum hvílir, þeim tíma sem varið er til stjórnarstarfa, aðkomu félagsins og að teknu tilliti til almennrar launaþróunar.
- Starfskjör framkvæmdastjóra
Gera skal skriflegan ráðningasamning við framkvæmdastjóra. Grunnlaun og aðrar greiðslur til framkvæmdastjóra skulu ávallt vera samkeppnishæf á markaði og taka mið af hæfni, ábyrgð og umfangi starfans. Önnur starfskjör skulu vera svo sem tíðkanleg eru hjá sambærilegum opinberum hlutafélögum, svo sem greiðslur í lífeyrissjóð, orlof, afnot af bifreið og uppsagnarfrestur. Við ákvörðun uppsagnarfrests í ráðningarsamningi má hafa sérstök ákvæði um lengd uppsagnarfrests sem tekur mið af starfstíma framkvæmdastjóra hjá félaginu.
Grunnlaun framkvæmdastjóra skulu endurskoðuð árlega og skal við slíka endurskoðun höfð hliðsjón af mati stjórnar á frammistöðu framkvæmdastjóra, þróun launakjara almennt í sambærilegum félögum og afkomu félagsins.
Við gerð ráðningasamnings við framkvæmdastjóra skal haft að leiðarljósi að ekki komi til frekari greiðslna við starfslok en fram kom í ráðningasamningi.
- Starfskjör starfsmanna
Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn félagsins. Við ákvörðun starfskjara gilda sömu sjónarmið og rakin eru í 3. gr., svo sem framkvæmdastjóri ákveður en hann skal einnig gæta þess að starfskjör annarra stjórnenda taki mið af samræmingu starfskjara innan félagsins.
- Upplýsingagjöf
Gera skal grein fyrir launum og öðrum starfskjörum stjórnar og æðstu stjórnenda s.s. framkvæmdastjóra í ársreikningi félagsins.
- Samþykkt starfskjarastefnu
Þessi starfskjarastefna NLSH ohf. er leiðbeinandi fyrir félagið og stjórn þess, mæli lög ekki fyrir um annað, og tekur í aðalatriðum til þeirra þátta sem nefndir eru hér að ofan. Starfskjarastefnan skal samþykkt á aðalfundi félagsins með eða án breytinga. Hafi verið vikið frá starfskjarastefnunni í veigamiklum atriðum skal stjórn félagsins færa slík frávik til bókar í fundargerðarbók ásamt rökstuðningi. Skal og gera næsta aðalfundi grein fyrir slíkum frávikum.
Þannig samþykkt á stjórnarfundi NLSH ohf. þann 1. mars 2024
Reykjavík, 1. mars 2024
Í stjórn Nýs Landspítala ohf.
________________________
Finnur Árnason
________________________
Dagný Brynjólfsdóttir
________________________
Sigurður H. Helgason