Umhverfis- og loftslagsstefna NLSH ohf.

Inngangur

Samkvæmt lögum um loftslagsmál nr. 70/2012 ber Stjórnarráði Íslands, ríkisstofnunum og fyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkisins að setja sér loftslagsstefnu. Stefnan skal innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) og kolefnisjöfnun starfseminnar ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð. Tilgangur loftslagsstefnu er að auðvelda ríkisaðilum að draga markvisst úr áhrifum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni og vera til fyrirmyndar með því að hafa bein og óbein áhrif á loftslagsskuldbindingar Íslands.
Í núgildandi sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf eru leiðarstef um loftslags- og umhverfismál. Þar kemur m.a. fram að stjórnvöld muni í samráði við sveitarfélög og atvinnulífið setja áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira.
Lög, reglur og viðmið sem sett eru af ríkisvaldinu eru grunnur umhverfis- og loftslagsstefnu NLSH ohf.


Markmið
Markmið umhverfis- og loftslagsstefnu NLSH er að takmarka og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá kjarnastarfsemi félagsins og daglegri starfsemi þess, efla umhverfisvitund starfsmanna, auka vellíðan þeirra og bæta starfsumhverfið. Í því sambandi mun félagið leitast við að varpa ljósi á mælanlegan árangur félagsins eins og kostur er og taka saman yfirlit í því skyni.

Í nýbyggingarverkefnum, hönnunar- og framkvæmdaverkefnum, á vegum NLSH er unnið skv. breska vistvottunarkerfinu BREEAM sem er eitt elsta og þekktasta vistvottunarkerfi í heimi fyrir byggingar. Í verkefnum sem lúta að endurbótum á eldri byggingum LSH, og félaginu hafa verið falin, er tekið mið af viðurkenndri aðferðafræði vistvænnar hönnunar s.s. BREEAM eða annarri álíka til að ýta undir þau jákvæðu áhrif sem vistvottunarkerfi hafa í för með sér fyrir umhverfið.

Í daglegum rekstri félagsins er stuðst við nálgun verkefnisins Græn skref í ríkisrekstri, sem er á forræði Umhverfisstofnunar. Aðgerðum verkefnisins er skipt í sex flokka sem ná yfir helstu umhverfisþætti í venjulegum skrifstofurekstri. Flokkarnir eru: Rafmagn og húshitun, samgöngur, flokkun og minni sóun, innkaup, viðburðir og fundir, miðlun og stjórnun.

Umhverfisstefna NLSH var samþykkt á fundi stjórnar þann 4. mars, 2022 og skal endurskoðuð eftir þörfum eða a.m.k. á tveggja ára fresti. Framkvæmdastjóri og aðrir stjórnendur NLSH bera ábyrgð á að stefnunni sé framfylgt.

 

Þannig samþykkt á stjórnarfundi Nýs Landspítala ohf.

Reykjavík, 20. mars 2024
Í stjórn Nýs Landspítala ohf

________________________
Finnur Árnason

 

________________________
Dagný Brynjólfsdóttir

 

________________________
Sigurður H. Helgason