SAk - Sjúkrahúsið á Akureyri

Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) er annað tveggja sérgreinasjúkrahúsa landsins og veitir bæði almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu með áherslu á bráðaþjónustu og helstu sérgreinameðferðir. Sjúkrahúsið er kennslusjúkrahús og vinnur að rannsóknum í heilbrigðisvísindum.

Á árinu 2023 lá fyrir ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytis um breytingar á skipulagi framkvæmda vegna sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu. Með ákvörðuninni er NLSH falið að fara með verklegar framkvæmdir sem varða uppbyggingu á innviðum sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu sem áður voru á ábyrgð FSRE (Framkvæmdasýsla-Ríkiseignir). Eitt af yfirstandandi verkefnum er bygging nýrrar legudeildar við SAk.

Til grundvallar liggur frumathugun sem unnin var á árinu 2021 af hálfu SAk og FSRE. Nýbyggingin mun hýsa legudeildir skurðlækninga, lyflækninga og geðlækninga. Auk þess verða í húsinu dag- og göngudeildir geðdeildar. Í frumathuguninni var lagt mat á fjölda legurýma út frá forsendum um íbúafjölda, tíðni innlagna og legudaga fyrir hvern aldurshóp. Stuðst var við mannfjöldaspá, þ.e. íbúaþróun og aldurssamsetningu til að áætla fjölda legurýma fram í tímann. Niðurstaðan er að árið 2040 þurfi lyf- og skurðlækningadeild samtals um 72 legurými og geðdeild 12 legurými, samtals 84. Í dag er fjöldi legurýma fyrir þessar deildir alls 53. Aukningi er því liðlega 58%.
Gert er ráð fyrir að nýbyggingin verði 9.200 m2 og staðsett sunnan við núverandi byggingar á lóð SAk og tengd eldri byggingu með tengigangi.

Fyrir liggur ráðgjafarsamningur milli NLSH og SAk til að tryggja faglega aðkomu sjúkrahússins að verkefninu. Auglýst verður opið forval að hönnun og í framhaldi útboð og verkframkvæmdir. Áætlað að verkinu ljúki árið 2027 með fyrirvara um heimildir.