Tæknimál og þróun
Önnur verkefni félagsins ná til uppbyggingar stoðbygginga Landspítala svo sem eldhúss, vörumóttöku og flokkunarstöðvar. NLSH vann ítarlega greiningu á ástandi núverandi húsnæðis spítalans sem er um 150.000 m2.
NLSH annast jafnframt innkaup á miðlægum tæknibúnaði ásamt lækninga- og rannsóknatækjum og öðrum búnaði í nýbyggingarnar.
Í meðferðarkjarna og rannsóknahúsi verður sett upp sjálfvirkt flutningskerfi sem mun flytja sorp og óhreint lín frá deildum í lokuðum rörum yfir í flokkunarstöð þar sem sorpið verður flokkað sjálfvirkt í viðeigandi gáma og líninu komið fyrir í língrindum til flutnings í þvottahús.
Í meðferðarkjarna og rannsóknahúsi verður einnig sérstakt rörpóstkerfi fyrir flutning á smávöru og sýnum eins og lífsýnum, lyfjum og blóðpokum. Kerfinu er ætlað að tryggja hraðar og öruggar sendingar innan og á milli bygginganna og auka sjálfvirkni og rekjanleika sendinga.
Þá verður sett upp sjálfvirkt, tölvustýrt vagnakerfi í byggingunum fyrir flutninga á mat, hreinu líni, vörum frá vörumiðstöð og stærri lyfjaeiningum.
Í meðferðarkjarna er gert ráð fyrir um 7.000 lækningatækjum og í rannsóknahúsi um 2.000 rannsóknatækjum. Hluti búnaðar Landspítala verður nýttur áfram í nýbyggingunum en annan búnað mun NLSH bjóða út með formlegum hætti samkvæmt lögum um opinber innkaup. NLSH mun jafnframt skipuleggja og annast flutninga úr núverandi byggingum Landspítala í nýju byggingarnar.
- Næsta færsla
- Fyrri færsla