Götur, veitur og lóð

Lóðin og gatna- hjóla- og göngustígakerfi hennar tengir saman starfsemi bygginganna. Tekið er tillit til margra þátta við hönnun lóðarinnar og henni er ætlað að hafa jákvæð áhrif á sjúklinga sem dveljast á spítalanum. Lóðin verður hagkvæm í rekstri og hönnunin tekur mið af því að um hana fara sjúklingar með ólíkar þarfir hvað varðar samgöngur.

Horft er til staðsetningar bílastæða og bílakjallara með það í huga að minnka bílaumferð innan svæðis en þó þannig að bílastæði fyrir sjúklinga séu sem næst inngöngum bygginganna.

Staðsetning stoppistöðva og öll aðstaða fyrir almenningssamgöngur á svæðinu er sérstaklega útfærð til að skapa hvata fyrir sjúklinga, starfsfólk og aðstandendur að nýta sér þær. Hugað er strax að framtíðarhugmyndum um Borgarlínu og götur hannaðar með hliðsjón af þeim.

Einn af mikilvægustu þáttum Nýs Landspítala er að til framtíðar verði flæði fólks og flutninga innan og utan bygginga með sem bestum hætti.

Það er gert með ýmsum hætti. Tengibrýr og tengigangar á milli bygginga munu þannig tryggja gott flæði.

Með innleiðingu stafrænna rörpóstkerfa, sjálfvirkra flutningsvagna og tölvustýrðra sorp- og línflutningskerfa verður tryggt að birgðir og aðföng flytjist á skilvirkan hátt um allt Hringbrautarsvæðið.