Fréttir


Áhugaverð þróun á lýsingu sem hljóðvist

25. mars 2024

Nýlega voru tveir verkefnastjórar NLSH staddir á Light+Building vörusýningunni í Frankfurt í byrjun mars. Heil höll var lögð undir stýringar og samþættingu kerfa, svo voru aðrar hallir sem voru helgaðar lýsingu og lömpum. LED og tölvutækni gerir það að verkum að orkuþörf hefur hrapað og hönnuðir geta leikið sér með form og birtu sem bæði er til að skapa sem bestar aðstæður í daglegri notkun en líka til að skapa hughrif og tilfinningu fyrir rými.

Af mörgu sem taka mætti fyrir í umfjöllun þá er afar athyglisvert hvernig hægt er að nota lampa til að hafa áhrif á hljóðvist. Einn fylgifiskur opinna og stórra vinnurýma er að áhersla verður að vera á hljóðvist en eins og reynslan sýnir er afar misjafnt hvernig til hefur tekist. Á sýningunni í Frankfurt voru aðilar að sýna lampa þar sem efnið í þeim er hannað til að draga til sín hljóð og margvísleg form gáfu þeim listrænan svip. Með þessum lömpum væri hægt að gera stór, opin rými mun betri varðandi hljóðvist og betrumbæta önnur eldri án þess að umturna loftum og veggjum.

Vissulega áhugaverð þróun á lýsingu sem hljóðvist og getur nýst bæði í nýbyggingum og endurgerð eldri bygginga líkt og fyrirhugað er við Hringbraut.