Alvarlegt að fólk liggi á göngum

7. nóvember 2012

Alvarlegt er að fólk liggi á göngum Landspítalans, segir slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins í viðtali við fréttastofu RÚV. Gangarnir séu flóttaleið ef eldur kviknar. Slökkviliðið þrýstir nú á Landspítalann að koma sjúklingum burt af göngunum. 

Yfirlit

Allt að tólf manns þurfa að liggja á göngum Landspítalans um helgar vegna þess að ekki eru laus rúm á deildum. Fimm legudeildum hefur verið breytt í heild eða að hluta í dagdeildir síðustu þrjú ár og þannig hefur sjúkrarúmum fækkað til muna. Sjúkrarúm eru rúmum tuttugu prósentum færri nú en fyrir hrun. Vinnueftirlitið fór í síðustu viku til að kanna aðstæður og slökkviliðið hefur einnig skoðað málið. 

Þarf að halda rýmingarleiðum opnum
Grunnhugsunin í eldvörnum sjúkrahúsa er að sjúklingar liggi ekki á göngum. „Gangarnir eru hannaðir sem flóttaleið, rýmingarleið,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins. „Mikilvægast af öllu er að halda rýmingarleiðum opnum.“

Jón Viðar segir að fyrsta skrefið sé að leiðbeina Landspítalanum um úrbætur. „Svo þegar að því er komið að þurfa að gera eitthvað meira þá höfum við þvingunarúrræði sem er þá kannski einhverjar sektir, það er þá kannski næsta úrræði. Og svo höfum við náttúrulega lokaúrræði sem við reynum að fara dálítið sparlega með en þurfum að grípa til ef engin önnur úrræði virka og það er hreinlega að loka,“ sagði Jón í viðtali við fréttastofu RÚV. 

Frétt RÚV