Áríðandi að fá nýjan spítala

19. mars 2013

Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir, segir áríðandi að fá nýjan spítala, í viðtali sem birtist við hann í Fréttablaðinu um helgina. Hann segir ákvarðanafælni einkenna umræðuna núna. 

„Það að taka ekki ákvörðun getur verið dýrkeypt. Þetta er eins og með sjúklinginn sem kemur inn með hnífsstungu í hjartanu. Ef menn eru of lengi að ákveða hvað eigi að gera þá er hann dáinn. Það kostar mikið fé að viðhalda öllu því sem er að gefa sig hér á Landspítalanum. Við sjáum það bara með húsnæðið. Hér eru tugir starfsmanna með alvarleg öndunarfæraóþægindi," segir hann meðal annars í viðtalinu.

Hann segir ennfremur að honum þyki ofboðslega vænt um Landspítalann en hafi miklar áhyggjur af honum.

„Hann er nokkrum númerum of lítill fyrir þá starfsemi sem ætlast er til af honum – eins og fullvaxinn maður sem er fyrirskipað að vera í fermingarfötunum. Það hefur verið gæfa Íslendinga að heilbrigðisstarfsfólk hefur menntað sig erlendis á miklu stærri stöðum, komið heim og getað boðið þessari fámennu þjóð upp á mjög sérhæfða þjónustu. Ég tel að við getum sagt með góðri samvisku að sá þáttur sé í háum gæðaflokki. Það er bara engan veginn sjálfgefið að þau gæði haldist ef það er ekki hlúð að spítalanum og þeirri starfsemi sem þar er. Unga fólkið veigrar sér við að koma heim úr sérnámi vegna þess að tækjabúnaður hér og aðstaða er ófullnægjandi. Það er látið eins og rekstur heilbrigðisþjónustunnar sé eintómur kostnaður en við sem störfum við hana erum alltaf að koma fólki á lappir og aftur út í þjóðfélagið. Við erum hagkvæmari en margur heldur," segir hann í viðtalinu í Fréttablaðinu.

Viðtalið sem birtist í Fréttablaðinu