Endurnýjun Landspítala mál alls samfélagsins

14. september 2012

Endurnýjun Landspítala við Hringbraut snýst ekki um lúxus og er mál alls samfélagsins. Þetta kemur fram í viðtali Fréttatímans við Bylgju Kærnested, hjúkrunardeildarstjóra hjartadeildar Landspítala.

Í viðtalinu er Bylgja spurð út í endurnýjun spítalans við Hringbraut og nefnir hún m.a. nauðsyn þess að sjúklingar dveljist á einbýlum. „Það er ekki boðlegt fyrir fárveikt fólk að deila sjúkrastofu með allt að fjórum öðrum mjög veikum sjúklingum og komast jafnvel ekki á klósett. Við eigum að geta boðið fólki upp á einbýli með salernisaðstöðu.Við erum ekki að tala um neinn lúxus. Á svona fjölmennum sjúkrastofum er ekkert næði og við þurfum oft að færa slæmar fréttir og ræða erfið mál fyrir allra eyrum því fólk kemst oft ekki fram úr rúmi,“ bendir hún á og nefnir jafnframt að sýkingum fækki þegar fólk dvelst á einbýlum, en þar sem eru fjölbýli.”

Bylgja segir það gleymast í umræðunni að með uppbyggingu við Hringbraut eigi að nýta tugþúsundir fermetra af eldra húsnæði. Þess vegan hafi verið ákveðið að byggja á Hringbraut, en Bylgja nefnir Barnaspítalann sem dæmi um deildir sem starfa mun áfram með nánast óbreyttu sniði og myndi kosta mikið að byggja upp á nýtt.

„Ég heyri fólk ræða um það að það séu ekki til peningar fyrir nýjum spítala. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við það að sá spítali sem við búum yfir í dag er úr sér genginn. Þó svo að við myndum endurnýja öll þau tæki sem þörf er á að endurnýja er einfaldlega ekki pláss fyrir þau í því húsnæði sem við höfum til afnota. Við munum að sjálfsögðu nýta öll þau tæki og allan þann búnað áfram í nýja spítalanum sem við getum. Við erum aðeins að tala um að endurnýja það sem þarf,“ segir Bylgja við Fréttatímann.

„Ég bíð eftir að heyra í vinnuvélunum hér fyrir utan – ég leyfi mér ekki að hugsa neitt annað. Ég bara trúi því ekki að fólk vilji raunverulega hætta við og taka annan hring á umræðunni. Það er búið að skoða þetta fram og til baka og niðurstaðan var að best væri að byggja við Hringbraut. Ég vona að við þreyjum þorrann í þessu gamla hrörlega húsnæði, endurnýjum tækin eins og hægt er á meðan og tökum þau svo með okkur í nýjan spítala. Ég vona að við förum sem eitt, bæði samfélagið og við sem vinnum á Landspítalanum, yfir á nýjan spítala með jákvæðu hugarfari.“ 

Út í hött  sé að líkja nýjum spítala við Hörpu eða IKEA. „Þetta er grunnþjónusta. Bara „basic“ sjúkrahús, ekkert „hátækni“ neitt. Þetta er háskólasjúkrahús sem er að veita þessa flóknu, dýru þjónustu sem fólk myndi finna fyrir ef væri ekki til staðar. Við getum ekki boðið fólki upp á þetta næstu tíu, fimmtán árin. Þá yrðum við að fara í mjög kostnaðarsamar breytingar og mikið viðhald sem væri langt frá því ásættanlegt. Þetta á ekki að vera pólitískt mál. Þetta er mál alls samfélagsins.”