Heilbrigðisráðherra opnar nýja götu - fyrsti hluti heildaruppbyggingar í Hringbrautarverkefninu

21. september 2016

Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, opnaði í dag nýja götu sem er fyrsti áfangi í uppbyggingu í Hringbrautarverkefninu við Landspítala Hringbraut.

Fulltrúar frá sjúklingasamtökum tóku þátt í athöfninni með þvi að opna götuna formlega með ráðherra. Að því loknu gengu fulltrúar sjúklingasamtaka með ráðherra eftir nýju götunni sem liggur frá Barónsstíg að K-byggingu Landspítala samhliða nýju sjúkrahóteli sem tekið verður í notkun 2017.

Bygging sjúkrahótelsins gengur vel og er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar Nýs Landspítala (NLSH) við Hringbraut. Í sjúkrahótelinu verða 75 herbergi og með tilkomu þess breytist aðstaða fyrir sjúklinga og aðstandendur mikið til batnaðar.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra: "Það var ánægjulegt að taka þátt í þessum áfanga uppbyggingar í Hringbrautarverkefninu. Verklegar framkvæmdir við sjúkrahótelið ganga vel og opnun nýju götunnar er mikilvægur áfangi í heildaruppbyggingu nýs þjóðarsjúkrahúss."

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri NLSH: " Í dag er ástæða til að gleðjast. Það var ánægjulegt að fá fulltrúa frá sjúklingasamtökunum til liðs við okkur í dag við opnun götunnar. Uppbygging Hringbrautarverkefnisins gengur vel, nýtt sjúkrahótel rís senn sem mun gerbreyta aðstöðu sjúklinga og aðstandenda þeirra. Við horfum björtum augum á framtíðina og á þá uppbyggingu sem hér á stað. Að þessu verki koma fjölmargir aðilar og verkefnið gengur vel“.


Nöfn fulltrúa frá sjúklingasamtökum sem tóku þátt í athöfninni:

Ólína Ólafsdóttir MS félagið, Emil Thoroddsen Gigtarfélag Íslands , Guðjón Sigurðsson MND félagið, Sveinn Guðmundsson Hjartaheill , Bergþór Böðvarsson Geðhjálp, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir Öryrkjabandalag Íslands, Bryndís Snæbjörnsdóttir Landssamtökin Þroskahjálp, Sigrún Gunnarsdóttir Krabbameinsfélag Íslands.

Nánari upplýsingar um sjúkrahótelið en það verður tekið í notkun 2017.

Aðalhönnuður sjúkrahótelsins er KOAN-hópurinn en forhönnun, skipulagsgerð, hönnun gatna og lóðar er unnin af Spitalhópnum. Húsið verður prýtt með steinklæðningum, listaverki eftir Finnboga Pétursson myndlistarmanni. Sjúkrahótelið verður fjórar hæðir og kjallari. Byggingin er 4.258 fermetrar að stærð. Hótelið mun tengjast barnaspítala og kvennadeild um tengigang.