Heppilegasta staðsetning nýs Landspítala er við Hringbraut

28. ágúst 2015

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, birtir í dag á heimasíðu spítalans vikulegan pistil.

Umfjöllunarefnið er að þessu sinni sú uppbygging sem fyrirhuguð er við stækkun Landspítala við Hringbraut.  Páll segir að á þessu ári sé búið að áætla um einum milljarði vegna verkframkvæmda við sjúkrahótel og til fullnaðarhönnunar meðferðarkjarnans. Ákvörðun um staðarval hafi verið margoft endurskoðuð og niðurstaðan ávallt sú sama að Hringbraut sé heppilegasta staðsetningin.

„Ræður þar miklu kostnaðarþátturinn en dýrast og raunar áhættusamast er að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni. Byggingarmagnið er einnig umtalsvert minna þar sem unnt er að nýta 56.000 fm eldri bygginga við Hringbraut, nálægðin við þekkingarsamfélagið í Vatnsmýrinni skiptir miklu fyrir háskólasjúkrahús og svo mætti áfram telja“, segir Páll.

Í pistlinum víkur Páll einnig að framkvæmdin sé umfangsmikil og kostnaðarsöm en að aðstæður í þjóðfélaginu ráði þvi að ekki sé unnt að ráðast í endurnýjun alls húsnæðis spítalans.

„Eftir vandlega skoðun á sínum tíma var það niðurstaðan að í algerum forgangi væri að sameina bráðastarfsemi spítalans í nýjum meðferðarkjarna við Hringbraut“, segir Páll.

 Páll segir jafnframt að á næstunni fari fram lokahönnun meðferðarkjarnans og að þvi verki komi hundruðir starfsmanna spítalans.

„Nýlega var endurskipað í fjölda rýnihópa og var þá sérstök áhersla lögð á að kalla til yngra starfsfólk með yfirgripsmikla þekkingu á starfseminni. Framundan er endurrýni á meðferðarkjarnann með gleraugum "Lean" aðferðafræði. Mun sú rýni skila betri og markvissari nýtingu húsnæðis“, segir Páll og  bendir á að þetta sé spennandi og skemmtilegt verkefni og einstakt tækifæri til að hanna húsakost í kringum besta verklag og þjónustu.

Pistil Páls má sjá hér