• New national hospital

Húsnæðismál Landspítalans

26. mars 2009

Undirbúningur að nýbyggingu fyrir Landspítalann hefur nú staðið um nokkurt árabil. Nýrri sjúkrahúsbyggingu er ætlað að sameina starfsemi hinna fjölmörgu deilda spítalans á einum stað, þannig að til verði ein hentug og vel gerð sjúkrahúsbygging í stað margra tuga aðskilinna og misjafnlega hentugra húsa, sem eru að meginstofni frá árunum 1930 til 1965. Meðan hugmyndavinnan stóð yfir komu fram ýmis heiti til að lýsa vissum þáttum starfseminnar, svo sem hátæknisjúkrahús og háskólasjúkrahús, en ekkert kemst nær meginhugmyndinni um hlutverk Landspítalans en heitið þjóðarsjúkrahús. Það heiti felur í sér að Landspítalanum er ætlað að þjóna sjúklingum af landinu öllu, alveg eins og þörf er á hverju sinni og hvort sem um er að ræða bráðaveikindi eða langvarandi sjúkdóma. Þess vegna þarf að standa vel að byggingum og búnaði fyrir Landspítalann.

Þjónusta Landspítalans 
Fjölbreyttri þjónustu Landspítalans má lýsa með því að nefna ýmis af meginsviðum hans: a) barnalækningar með undirdeildum fyrir almennar og sérhæfðar barnalækningar, barnaskurðlækningar og nýburalækningar; b) endurhæfingarlækningar; c) geðlækningar með deildum fyrir börn, unglinga og fullorðna; d) kvenlækningar með sérstökum deildum fyrir meðgöngu og fæðingu; e) lyflækingar með deildum vegna blóðsjúkdóma, gigtsjúkdóma, hjartasjúkdóma, innkirtlasjúkdóma, krabbameina, lungnasjúkdóma, meltingarsjúkdóma, nýrnasjúkdóma, smitsjúkdóma og taugasjúkdóma; f) skurðlækningar með deildum fyrir augnlækningar, brjóstholsskurðlækningar, bæklunarskurðlækningar, háls-, nef- og eyrnalækningar, heila- og taugaskurðlækningar, þvagfæralækningar og æðaskurðlækningar; og loks g) öldrunarlækningar. Þá má nefna slysa- og bráðadeildir, blóðrannsóknadeildir og röntgendeildir (myndgreiningu).

Þjónustunni má einnig lýsa með tölulegum upplýsingum. Á árinu 2008 fengu rúmlega 100 þúsund einstaklingar heilbrigðisþjónustu á Landspítalanum, sumir komu þar margoft, aðrir sjaldan eða aðeins einu sinni. Umfangi starfseminnar má lýsa þannig að sjúkrahúslegur (innlagnir sjúklinga) hafi verið tæplega 29 þúsund og samanlagðir legudagar sjúklinganna 232 þúsund á því ári. Að auki voru komur sjúklinga á göngudeildir rúmlega 340 þúsund, komur á dagdeildir 93 þúsund og komur á slysa- og bráðadeildir 94 þúsund. Þá má nefna rúmlega 3.300 fæðingar, 14.500 skurðaðgerðir, um 124 þúsund röntgenrannsóknir og um 2 milljónir annarra rannsókna. Dæmi um fjölda legudaga sjúklinga á deildum meginsviða má einnig nefna: barnasvið rúmlega 11 þúsund, kvennasvið tæplega 11 þúsund, geðsvið rúmlega 52 þúsund, lyflækningar meira en 60 þúsund, skurðsvið um 40 þúsund, öldrunarsvið tæplega 40 þúsund legudagar og er þó ekki nærri allt talið.

Húsnæði Landspítalans 
Undirritaður hefur áður vakið athygli á því í blaðagreinum hversu illa farnar og lélegar sumar byggingar Landspítalans eru orðnar. Á það sérstaklega við um hús rannsóknadeilda spítalans, svo sem „bráðbirgðahúsin“ svonefndu við Barónsstíg og hús sýkla- og veirufræðideilda við Ármúla. Starfsmenn í þessum húsum búa við þrengsli, kulda, leka, lélega hreinlætisaðstöðu og óöryggi í neysluvatni og frárennslislögnum. Hús þessi eru að sumu leyti ekki talin uppfylla lágmarkskröfur um hollustu á vinnustöðum, en í þeim fara þó fram rannsóknir sem eru undirstaða sjúkdómsgreiningar og meðferðar sjúklinga á Landspítalanum. 
Á undanförnum árum hafa spítalarnir þrír í Reykjavík, Landspítalinn, Borgarspítalinn og Landakotsspítali verið sameinaðir. Sameiningin nær þó enn ekki til húsnæðisins nema að litlu leyti. Starfsemin er enn svo dreifð um Reykjavíkursvæðið og starfað er í svo mörgum húsum að með ólíkindum er. Stærstu starfsstöðvarnar eru við Túngötu, Hringbraut, Þorfinnsgötu, Snorrabraut og Grensás, í Fossvogi og Kópavogi, á Vífilsstöðum, við Kleppsveg, Dalbraut og Ármúla. Þá er ótalin starfsemi birgðastöðvar og þvottahúss við Tunguháls, skjalasafnsins í Vesturhlíð og Hvítabandsins við Skólavörðustíg. Ekki er enn allt talið, enda munu húsin á vegum Landspítalans vera fleiri en eitt hundrað talsins.

Í upphafi þessarar greinar var bent á að byggingar Landspítalans eru flestar á aldrinum 40–80 ára. Það er erfitt að trúa því að veita megi fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í húsum, þar sem ekki einu sinni kranavatnið er talið í lagi. Kostnaður af viðhaldi þessara gömlu húsanna mun fara stöðugt vaxandi verði notkun þeirra haldið áfram. Eina viðunandi lausnin er ný og hagkvæm sjúkrahúsbygging. Hún munu fljótt borga sig með þeim sparnaði í rekstri sem koma mun í ljós þegar starfsemi gömlu Reykjavíkurspítalanna þriggja hefur verið að fullu sameinuð í eitt þjóðarsjúkrahús. Undirritaður mun freista þess í framhaldsgrein að gera nánari grein fyrir húsnæðismálum Landspítalans.