Kennarar í byggingagreinum framhaldsskóla í heimsókn

4. mars 2024

Það var fríður hópur kennara framhaldsskóla sem heimsótti framkvæmdasvæði NLSH þann 1.mars. Veðrið lék við hvern sinn fingur þegar Ásbjörn Jónsson og Árni Kristjánsson á framkvæmdasviði NLSH gengu með hópinn um framkvæmdasvæðið. Að auki fékk hópurinn greinargóða kynningu á helstu framkvæmdaverkefnum hjá Gísla Georgssyni á tækni – og þróunarsviði.

„Síðastliðinn föstudag fóru um 30 kennarar í byggingagreinum framhaldsskóla í heimsókn til NLSH. Heimsóknin var hluti af dagskrá starfsþróunardags framhaldsskólanna sem margir framhaldsskólar á landssvísu tóku þátt í. Fyrr um daginn fengu byggingagreinakennarar heimsókn frá sérfræðingum frá HMS en eftir hádegið var rölt frá Tækniskólanum í blíðskaparveðri inn á byggingarsvæði nýja Landspítalans. Þar var vel tekið á móti hópnum þar sem labbað var um svæðið þar sem mesta athyglin var á glereiningarnar sem mynda kápuna utan um burðarvirkið. Síðan var farið ítarlega yfir stærðir og aðrar áhugaverðar tölulegar upplýsingar sem fylgja þessari framkvæmd.

Við þökkum kærlega fyrir faglegar og góðar móttökur og þetta tækifæri að fá að skoða þessa gríðarlega stóru og áhugaverðu framkvæmd;” segir Gunnar Kjartansson skólastjóri Byggingatækniskólans.