Lyftur gjörgæsludeildar of litlar

18. október 2012

Lyftur gjörgæsludeildar Landspítalans eru svo litlar að nauðsynleg tæki komast oft ekki í þær. Öndunarvélinni er oft sleppt þegar sjúklingar eru fluttir milli hæða, að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2 á dögunum. Þar kom einnig fram að hugmyndir séu um að byggja utanáliggjandi lyftur á elsta hluta spítalans.

Fréttastofa Stöðvar 2 fékk Ölmu Dagbjörtu Möller, yfirækni deildarinnar, til að sýna hvernig staðan væri hjá heilbrigðisstarfsfólki og sjúklingum en oft komast sjúkrarúm og tæki ekki fyrir inn í lyftunni. 

"Við erum að horfa á eitt af lýsandi dæmum um slæman húsakost og aðbúnað hér á Landspítalanum. Við erum hér í 80 ára gömlu húsi, sem er barn síns tíma. Lyfturnar eru litlu stærri en rúmin og hér flytjum við gjörgæslusjúklinga milli gjörgæsludeildar, skurðstofa og á hjartaþræðingu, niður á röntgen og stundum þurfum við, því miður, að flytja sjúklinga milli Fossvogs og Hringbrautar. Þessir mikið veiku sjúklingar þurfa ýmsan tækjabúnað með sér, vökvadælur, öndunarvél, ósæðadælu og hjarta- og lungnavél" sagði Alma í fréttinni.

Alma sagði ennfremur að fyrsti kostur til að leysa úr stöðunni sé nýr og sameinaður Landspítali. Hún óttast þó að frestur geti orðið á byggingu hans. Hún segir nauðsynlegt að bregðast við stöðunni ef bið verður á byggingu hans og því er verið að skoða hugmyndir um að stækka lyfturnar eða byggja lyftustokk utan á elsta part spítalans. Kostnaður við það er talinn nema 30 til 40 milljónum. Báðar framkvæmdirnar verða síðan til þess að starfsemin sem fyrir er mun missa pláss. "Ef farið verður í þetta verður það dæmi um reddingar sem þarf ef ekki verður byggt," sagði Alma í frétt Stöðvar 2.  

Fréttin á Vísi