Málstofa um upplýsingatækni í nýjum spítala

23. febrúar 2024

Þann 22. febrúar var haldin málstofa tækni- og þróunarsviðs NLSH á hótel Nordica sem bar yfirskriftina „staða upplýsingatækni á Landspítala í alþjóðlegum samanburði”.

Dagskrá málstofunnar var að Morten Thorkildsen frá Morten Consulting AS, hóf fundinn með fyrra erindi sínu „Electronic Medical Record Adoption and IT Infrastructure at Landspítali“.

Að því loknu var Svava María Atladóttir framkvæmdastjóri frá Landspítala með erindið „Upplýsingatækni í nýjum spítala“. Í kjölfarið var það Hannes Þór Bjarnason, verkefnastjóri hjá NLSH sem fjallaði um áætlanagerð byggða á HIMSS stöðumati og í lokin var komið aftur að Morten með lokaerindið „Smart hospital“.

Aðdragandi málstofunnar er sá að í lok síðasta árs var gerð forskoðun á hugbúnaðarkerfum og tæknilegum innviðum Landspítala. Forskoðunin átti sér stað á tveimur vinnustofum, sem haldnar voru í desember 2023 og í janúar á þessu ári. NLSH sér um verkefnastjórnun, en frá Landspítala var fjöldi starfsmanna sem tók þátt í þeirri vinnu.

Úttektaraðili í forskoðun var einn fyrirlesara, Morten Thorkildsen, í samvinnu við ráðgjafafyrirtækið Intellecta og alþjóðasamtökin HIMSS.

„Það var mjög mikilvægt að fá innsýn og endurgjöf frá reyndum aðilum á borð við Morten Thorkildsen og John Rayner frá HIMSS en hann er svæðisstjóri HIMSS í Evrópu og hefur heimsótt og tekið út hundruð sjúkrahúsa um allan heim , “segir Hannes Þór Bjarnason verkefnastjóri hjá NLSH.

Nú liggja fyrir niðurstöður forskoðuninnar og á málstofunni voru þær kynntar. Í stuttu máli má segja að Landspítalinn hafi komið vel út í samanburði við marga spítala erlendis og er töluvert fyrir ofan meðaltal. Forskoðunin leiddi þó í ljós ýmis tækifæri fyrir spítalann til að bæta sig. Þeir Morten og John höfðu jafnframt á orði að þrátt fyrir manneklu og takmarkaðar fjárheimildir til upplýsingatækni, undanfarin ár, þá hafi náðst mikill árangur á því sviði.  Í framhaldinu munu bæði NLSH og LSH nýta niðurstöður úttektarinnar til þess að setja saman verkefnalista fyrir upplýsingatækni í nýjum byggingum.

Málstofustjóri var Kristján Sturlaugsson verkefnastjóri hjá NLSH. Fjölmennt var á málstofunni og góður rómur gerður af fyrirlestrum og spurningum úr sal.

Neðri mynd: Hannes Þór Bjarnason frá NLSH

23.2-2024-innri