• New national hospital

Nýr Landspítali – hagur allra

16. mars 2012

Landsmenn horfa nú til þess að á næstu árum stækki húsnæði Landspítala við Hringbraut með löngu tímabærum nýbyggingum.  Mikið hefur verið rætt og ritað um þessa framkvæmd á síðustu vikum og mánuðum og sitt sýnist hverjum. 

 

En af hverju þurfum við nýtt sjúkrahús? Fram til þessa hefur starfsemi Landspítala verið á nærri tuttugu stöðum en að stærstum hluta í Fossvoginum og við Hringbraut og af því hlýst mikið óhagræði. Í dag vinna starfsmenn spítalans afar metnaðarfullt starf en við verulega slæma aðstöðu þar sem húsnæði og aðstaða er þröng og úr sér gengin. Fara þarf með sjúklinga á milli húsa til innlagnar, í rannsóknir eða til meðferðar. Í núverandi skipulagi eru víða reknar fleiri en ein sambærileg eining s.s. gjörgæsla, skurðstofur, rannsóknarstofur, röntgendeild og svo mætti lengi telja. Af því hlýst augljóst óhagræði. 

Kröfum mætt og sparað um leið
Núverandi aðstaða á Landspítala er þess eðlis að hún mætir engan veginn kröfum og framförum í nútíma heilbrigðisvísindum. Ekki bara það að starfsemin sé dreifð heldur er húsnæðið í mörgum tilfellum barn síns tíma, úrelt og krefst mikils viðhalds. Með stækkun Landspítala erum við að mæta kröfum um framfarir en á sama tíma að spara, því dýrast af öllu er að gera ekki neitt. 

Bygging sjúkrahússins er stór framkvæmd enda verður það byggt í áföngum. Í fyrsta áfanga verður byggður helmingur legudeildanna. Þá verður einnig farið í að byggja bráðamóttöku, gjörgæslu, skurðstofur, rannsóknarstofur, myndgreiningu, sjúklingahótel og fleira. 
Við byggingu fyrsta áfanga er gert ráð fyrir að legudeildir verði níu talsins, þ.m.t sérstök smitsjúkdómadeild. Sjúklingar verða hafðir í fyrirrúmi og vinnuaðstaða  allra starfsmanna stórbætt. Allar sjúkrastofur eru einbýli sem gerir starfsmönnum kleift að veita alla hjúkrunarmeðferð, svo og sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun á stofum sjúklinga. 

Bættar sýkingarvarnir
Sérbýlin skapa næði fyrir sjúklinga og sýkingarvarnir á spítalanum batna. Sjúkrastofur á Landspítala í dag eru flestar tveggja manna stofur og allt uppí fjögurra manna stofur.  Þá deila flestir sjúklingar salernum með einum og allt upp í sjö manns og stenst þessi aðstaða engan veginn kröfur nútímans um sýkingarvarnir. Hönnun á legudeildum nýs spítala tekur mið af sýkingarvörnum. Sérhverri sjúkrastofu mun fylgja innangeng snyrting með sturtu sem hönnuð er miðað við aðgengi fatlaðra og með það í huga að tveir starfsmenn geti aðstoðað sjúkling. Þá er gert ráð fyrir að ættingjar geti nú verið í meira næði hjá sínum nánustu. 

Höfundar vilja hvetja alla sem áhuga hafa á að kynna sér staðreyndir um stækkun Landspítala. Mikilvægt er að hafa í huga að verið er að byggja sérhæfðan spítala fyrir alla landsmenn.  Nýr Landspítali verður í senn miðstöð heilbrigðisvísinda á Íslandi og sjúkrahús allra landsmanna. Hann mun færa sjúklingum aukið öryggi og aðbúnað sem er til sóma hverri þjóð sem telur sína heilbrigðisþjónustu vera í fremstu röð.