• New national hospital

Nýtt hátæknisjúkrahús getur sparað 7-10% í rekstri LSH

9. janúar 2006

Mikið hefur borið á umræðu um heilbrigðismál undanfarið enda málaflokkur sem snertir alla landsmenn. Frá því að Landspítalinn-háskólasjúkrahús (LSH) varð til eftir sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítalanna í maí árið 2000 hefur átt sér stað mikið starf við stefnumótun innan spítalans. Einnig hefur verið lögð mikil áhersla á hagkvæmni í rekstri en slík krafa hefur lengi verið uppi af hálfu stjórnvalda.

Fjárframlög til LSH eru ákveðin í fjárlögum sem samþykkt eru á Alþingi ár hvert. Fjárlögin hafa falið í sér skýlausa kröfu á hendur stjórnendum spítalans um að ná fram sparnaði í rekstri upp á 2-4% á ári. Á sama tíma og stjórnendur spítalans hafa reynt að koma til móts við kröfur stjórnvalda um sparnað hafa verkefni LSH verið að aukast ár frá ári. Ástæður þess má m.a. rekja til þess að þjóðin hefur verið að eldast, bæði vegna vitundarvakningar um mikilvægi góðrar heilsu og eins þar sem framfarir í læknavísindum og tækni hafa orðið til þess að hægt er að lækna mun fleiri sjúkdóma en áður. Samfara því hefur lyfjanotkun og kostnaður vegna hennar sífellt aukist.

Ef þróun fjárframlaga til spítalans undanfarin ár er skoðuð á föstu verðlagi kemur í ljós að spítalinn hefur verið rekinn á um það bil sömu krónutölu undanfarin ár. Breyting í fjárframlögum hefur verið lítil á milli ára og sem dæmi þá er hlutfallsleg aukning í fjárframlögum frá árinu 2000 til 2005, 0,1% ef tölur eru bornar saman á verðlagi ársins 2005. Sjá töflu.

Útgjöld LSH verða ekki skorin frekar niður nema dregið verði úr þjónustu spítalans. Slíkar ráðstafanir munu eðlilega ekki falla í góðan jarðveg meðal almennings og eins eru takmörk fyrir því hve langt má ganga gagnvart lögboðnum skyldum spítalans. Það er því ljóst að þegar verkefni aukast árlega um 2-3% á sama tíma og fjárframlögin eru nær óbreytt er nauðsynlegt að hugsa til framtíðar og þá sérstaklega til þess hvernig ná megi endum saman í rekstri spítalans.

Sparnaður með nýjum spítala

Stjórnarnefnd og stjórnendur LSH hafa undanfarin ár vakið athygli stjórnvalda á því að til að hægt verði að ná fram frekari sparnaði í rekstri spítalans verði að byggja nýjan spítala sem sé þannig hannaður að mögulegt sé að ná fram verulegri hagræðingu í rekstri. Eins og flestum er kunnugt hafa stjórnvöld hlustað á þessi rök og samþykkt fjárveitingu til byggingar nýs hátæknisjúkrahúss. Í því sambandi er afar mikilvægt að almenningur og stjórnmálamenn hafi í huga að slík framkvæmd snýr ekki eingöngu að því að bæta húsnæðiskost spítalans sem í mörgum tilfellum er alls óviðunandi fyrir bæði sjúklinga og starfsfólk. Heldur er þessi framkvæmd nauðsynleg til að ná fram hagkvæmni í rekstri. Samanburðartölur frá öðrum löndum renna stoðum undir þá skoðun að með því að flytja alla starfsemi LSH undir eitt þak sé mögulegt að ná fram sparnaði í rekstri sem numið getur 7-10% af heildarútgjöldum spítalans. Nýr spítali er grunnforsenda þess að hægt verði að búa í haginn fyrir framtíðina án þess að heildarútgjöld til heilbrigðismála aukist ár hvert sem hlutfall af ríkisútgjöldum.

Forgangsverkefni

Að mati stjórnenda LSH er nýbygging eins og nú hefur verið ákveðið að reisa nauðsynlegt forgangsverkefni. Kostnaður við byggingu nýs spítala er áætlaður 35 milljarðar en sá kostnaður mun að hluta til verða fjármagnaður með sölu á núverandi eignum spítalans. Ef okkur tekst að ná 10% sparnaði í rekstrarkostnaði spítalans þýðir það 2-3 milljarða króna í sparnað á ári. Flestir eru væntanlega sammála því að hér er um þjóðhagslega hagkvæma aðgerð að ræða.

Þeir sem efast verða að hafa í huga að hluti af starfsemi spítalans er í húsnæði sem hentar ekki starfseminni. Þetta húsnæði er yfirleitt mjög illa farið og kallar á mikil útgjöld vegna viðhalds, útgjöld sem væri betur varið til nýbyggingar. Nýtt hátæknisjúkrahús fyrir alla starfsemi LSH skapar fyrsta flokks umhverfi fyrir starfsfólk og sjúklinga og gerir stjórnendum betur kleift að mæta kröfum um sparnað og hagræðingu í rekstri. Erlendar samanburðartölur tala þar sínu máli. Síðast en ekki síst geta stjórnendur spítalans betur sinnt þeirri skyldu sinni að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir og fjölgun verkefna sem verður samfara tækniframförum og hækkandi meðalaldri þjóðarinnar.

Samanburður milli ára á föstu verðlagi 2005 Fjárlög 2006

Samanburður milli ára á föstu verðlagi 2005

 

Fjárlög

2006

Útkomuspá

2005

2004

2003

2002

2001

2000

Meðaltal

Tekjur

1,8

2,2

2,1

2,1

2,2

1,6

1,2

1,9

Laun og launatengdgjöld

19,6

19,5

19,6

20,0

19,4

18,8

19,1

19,4

Rekstrargjöld

6,6

7,1

6,7

7,0

6,5

6,4

6,2

6,6

Samtals gjöld

26,2

26,6

26,3

27,0

25,9

25,2

25,3

26,1

S-merkt lyf

1,7

1,8

1,8

1,6

1,4

1,1

0,0

1,3

Eignakaup

0,2

0,2

0,2

0,2

0,3

0,2

0,2

0,2

Stofnkostnaður*

0,5

0,5

0,7

0,9

1,8

1,3

1,0

1,0

Hlutfallsleg breyting án S-merktra lyfja & stofnkostn. Barnaspítala**

-0,4%

0,2%

-2,9%

2,4%

1,9%

-1,6%

1,8%

 

*m.a. bygging nýs barnaspítala 2000-3

**Heildarhlutfallsleg breyting frá árinu 2000 til ársins 2005 er 0,1% hækkun.