Öldungadeild Verkfræðingafélags Íslands í heimsókn

20. mars 2024

Í dag komu í heimsókn félagar í Öldungadeild Verkfræðingafélags Íslands. Þeir fengu kynningu á framkvæmdaverkefnum þar sem Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri, bauð gesti velkomna og að þvi loknu var Gísli Georgsson verkefnastjóri með kynningu á þvi helsta í starfsemi NLSH.

Að kynningu lokinni var gengið út í vetrarveðrið og framkvæmdasvæðið skoðað undir stjórn verkefnastjóranna Árna Kristjánssonar og Jóhanns G. Gunnarssonar. Mikil ánægja var með heimsóknina og líflegar umræður voru að lokinni kynningu.

„Öldungadeild Verkfræðingafélags Íslands fór í vinnustaðarheimsókn í nýjan Landspítala í dag. Veðrið var versta veður vorsins,  hvassviðri og rigning og þátttaka var um 30 manns. Gestgjafar virtust búnir undir nokkur afföll vegna veðursins, en svo var ekki, nánast kollheimt, enda hópurinn ýmsu vanur. Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri tók á móti gestum en síðan flutti Gísli Georgsson ítarlega kynningu um verkefnið. Þótti gestum mikið til koma og spurðu margs, ekki síst um byggingartæknina, enda búnir að berjast við íslenskt veðurfar í hálfa öld. Að kynningu lokinni fóru flestir búnir hjálmum og gulum vestum í fylgd verkfræðinga staðarins út í rigninguna og gengu að meðferðarkjarnanum, bönkuðu í útveggjaelementin og litu niður í grunn rannsóknahússins. Gamlir virkjunarmenn dáðust að járnalögninni og fiðruðust upp við að steypa ætti botnplötuna, 1000 m3, daginn eftir. Það fannst þeim alvöru. Hópurinn hraðaði sér síðan inn úr rigningunni, skilaði göllunum og hlakkaði til að koma síðar í sólinni,“ segir Pétur Stefánsson formaður Öldungadeidar VFÍ.


20.3-innri