Samningur undirritaður vegna jarðvinnu á vinnubúðareit

25. september 2020

NLSH ohf. og Snókur verktakar ehf. undirrituðu þann 24. september sl. samning vegna jarð- og lagnavinnu á vinnubúðareit á lóð Landspítalans við Hringbraut. Vinnan felst meðal annars í því að leggja veitukerfi, fylla í, jafna og malbika undir vinnubúðasvæðið, setja upp girðingar, aðgangshlið og fleira. Stefnt er að verklokum í byrjun nóvember.

Snókur hefur mikið komið við sögu í yfirstandandi framkvæmdum þar sem mikið magn af jarðvegi var flutt á vegum fyrirtækisins frá grunni meðferðarkjarnans. Efnið var flutt á Laugarnestanga þar sem til varð ný landfylling sem í fyllingu tímans verður notuð sem byggingaland. NLSH leggur mikla áherslu á að halda raski í lágmarki og voru allir flutningabílar Snóks keyrðir gegnum þvottastöð áður en þeir lögðu af stað með fullfermi um götur borgarinnar.

Snókur er gamalgróið fyrirtæki og leggur áherslu á öryggis, heilbrigðis- og umhverfismál ásamt því að skila góðum og hagkvæmum verkum. Snókur hefur á að skipa góðum tækja- og bílaflota ásamt mjög öflugu teymi starfsfólks, en starfsmenn eru um 50 talsins.

Samninginn undirritaði f.h. NLSH ohf., Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri og frá Snók verktökum Kristmundur Einarsson. Vottar voru þeir Ásbjörn Jónsson sviðsstjóri framkvæmdasviðs NLSH og Ólafur M. Birgisson staðarverkfræðingur NLSH.