Samráðsfundur með fulltrúum norrænna sjúkrahúsa

11. janúar 2024

Þegar sótt var ráðstefna dönsku samtakanna Forum for sygehus teknik og arkitektur, FSTA, (sjá www.fsta.dk ) á síðasta ári vaknaði áhugi erlendra aðila á að kynnast nýbyggingarverkefnum NLSH og kynna lausnir í lyfjaloftskerfum sjúkrahúsa. Í desember var síðan haldinn norrænn samráðsfundur með aðilum frá NLSH , LSH og frá Fastus. Erlendir aðilar sem sóttu fundinn voru frá Strandmöllen, QMT, Busch, Niras, tæknimenn í nýbyggingaverkefnum við sjúkrahúsin í Odense og Álaborg ásamt rekstrarstjóra sjúkrahússins í Færeyjum. Tilgangur fundarins var kynning erlendu aðilanna á lyfjaloftskerfum, tæknibúnaði þeim tengt og áskoranir við uppsetningu lyfjaloftskerfa á nýjum sjúkrahúsum í Danmörku og Færeyjum. Þá fengu erlendu gestirnir kynningu á framkvæmdaverkefnum NLSH og heimsóttu Landspítala.

„Fundurinn var mjög gagnlegur og mikilvægt fyrir okkur að kynnast lausnum og fá reynslusögur af uppsetningu lyfjaloftskerfa á þessum erlendu sjúkrahúsum, ekki síst í ljósi þess að verkefni NLSH eru í sambærilegri stærðargráðu og mörg erlend ný sjúkrahúsverkefni,” segir Aðalsteinn Pálsson verkefnastjóri hjá NLSH.