Útboð á uppsteypu á rannsóknahúsi

24. júlí 2023

NLSH auglýsti þann 22.júlí í dagblöðum útboð á uppsteypu á nýju rannsóknahúsi.

Í rannsóknahúsi verður öll rannsóknastarfsemi Landspítala sameinuð á einn stað.

Um er að ræða almennt útboð, sbr. 2. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup (OIL) og er ótilteknum fjölda, með almennri útboðsauglýsingu, gefin kostur á að gera tilboð. Um útboðið gildir ÍST 30:2012 Almennir útboðs- og samningsskilmálar um verkframkvæmdir.

Útboð þetta tekur til uppsteypu vegna byggingar rannsóknahúss á lóð Landspítala við Hringbraut. Heildarflatarmál er 17.808 fermetrar á fimm hæðum ásamt kjallara.

Að sögn Jónasar Jónatanssonar, teymisstjóra áætlana og innkaupa hjá NLSH, er ánægjulegt að útboð á uppsteypu rannsóknahússins hafi nú verið auglýst.

„Hönnun hússins hefur reynst tímafrekari en gert hafi verið ráð fyrir sem hefur seinkað útboðinu. Um er að ræða afar mikilvægan hlekk í uppbyggingunni við Hringbraut. Við vonumst eftir góðri þátttöku öflugra verktaka í útboðinu og að sjálfsögðu eftir hagstæðu verði enda um stórt og spennandi verkefni að ræða,“ segir Jónas.

Tilboðum skal skila í gegnum útboðskerfið Tendsign.is fyrir kl. 10:00 þriðjudaginn 5. september 2023.

Auglýsinguna má sjá hér