Fréttir


Að rata vel og örugglega um nýjan Landspítala

19. janúar 2022

“Þetta er mjög mikilvægt verkefni sem snýr að rötun um nýjan spítala og umhverfi hans þegar starfsemin hefst, segir Sigurlaug I.Lövdahl, verkefnastjóri hjá NLSH.

Verkefnið hófst á síðasta ári þegar NLSH fékk til liðs við sig danskt ráðgjafafyrirtæki Triagonal sem sérhæfir sig í rötun (e. wayfinding). Fyrirtækið hefur komið að hönnun rötunarkerfa í sjúkrahúsum og í almannarýmum og opinberum stofnunum einkum í Danmörku.

Rötun snýst um að sjúklingar, gestir og gangandi, geti komist leiðar sinnar með einföldum hætti en oft getur verið afar tímafrekt og ruglingslegt að rata innan opinberra bygginga ef ekki hefur verið hugað vel að þessum þætti.

Rötun snýst ekki einungis um að koma upp upplýsingaskiltum heldur snýst það um að leiða viðkomandi á áfangastað eftir ákveðnu röklegu rötunarkerfi.

Við höfum miklar væntingar til þessa samstarfs og að fá að nýta þekkingu og reynslu Triagonal, segir Sigurlaug.