Almenn ánægja með rekstur sjúkrahótelsins

9. maí 2022

Frá þvi að Landspítalinn tók við lyklum sjúkrahótelsins, þegar Nýr Landspítali lauk við byggingu þess, hefur reksturinn gengið vel.

Mikil ánægja er hjá sjúklingum með tilkomu sjúkrahótelsins sem nýtist vel þeim hópi sjúklinga sem hafa þurft að sækja heilbrigðisþjónustu á Landspítala og annars staðar og þurfa hvíld áður en heim er farið. Í sjúkrahótelinu eru 75 herbergi og meðal annars herbergi fyrir fatlaða og fyrir fjölskyldur. Á jarðhæð hótelsins er bjartur og rúmgóður veitingasalur í hlýlegu umhverfi og sólstofa er á þakhæð hússins.

Sólrún Rúnarsdóttir hótelstjóri sjúkrahótelsins:

“Mjög góð nýting hefur verið hér hjá okkur síðan Landspítali tók við rekstrinum árið 2019. Almenn ánægja hefur verið innan stjórnkerfisins með starfsemina og meirihluti gesta hefur lýst ánægju sinni með þjónustuna í þeim könnunum sem gerðar hafa verið. Aðsóknin hefur verið með eindæmum góð og flesta daga eru öll herbergi fullnýtt. Að sjálfsögðu hefur covid faraldurinn sett mark sitt á starfsemina en hefur haft mjög jákvæða þýðingu í flæði spítalans. Þannig hefur verið hægt að halda uppi starfsemi dag- og göngudeilda sem hefði verið erfitt annars á þessum tímum.

Mjög mikilvægur þáttur er sá stuðningur sem við veitum fólki, sem eru að koma af legudeildum, til að fá hvíld áður en heim er haldið. Einnig hefur líka orðið aukning í fæðingarþjónustu Landspítala og foreldrar sem bíða eftir fæðingu, eru í gangsetningu eða komast ekki strax til síns heima, hafa getað nýtt þessa aðstöðu. Auk þess dvelja hér oft foreldrar veikra barna og foreldrar með börn á vökudeild. Því má segja að hlutverk sjúkrahótelsins sé mjög mikilvægt í heilbrigðisþjónustunni,” segir Sólrún Rúnarsdóttir.

Á mynd: Sólrún Rúnarsdóttir, hótelstjóri, Sólveig Anna Gunnarsdóttir, sjúkraliði og Ragna Ragnars, hjúkrunarfræðingur.