• New national hospital

Betri árangur með nýjum sjúkrahúsbyggingum

25. janúar 2006

Að undanförnu hefur nokkuð verið fjallað um byggingu nýs húsnæðis fyrir Landspítala - Háskólasjúkrahús (LSH) við Hringbraut. Eðlilega hafa vaknað spurningar um hvort svo umfangsmikil framkvæmd sé nauðsynleg og að hvaða marki æskileg fyrir þróun í heilbrigðismálum Íslendinga. Það sjónarmið hefur komið fram að fjármagni ætti frekar að verja í forvarnarstarf og þjónustu við aldraða en í nýja sjúkrahúsbyggingu. Öllu líklegra er samt að nýtt sjúkrahús eigi eftir að efla á margan hátt forvarnir í heilbrigðismálum landsmanna og þjónustu við aldraða. Það verður þó ekki sérstaklega til umfjöllunar hér heldur hvernig sannanlega er hægt að bæta árangur í þjónustu sjúkrahússins með nýjum byggingum. 

Erlendar rannsóknir hafa ótvírætt sýnt fram á að húsnæði sjúkrahúsa, sem skipulagt er með líkum hætti og á LSH, er að mörgu leyti óheppilegt fyrir nútíma heilbrigðisþjónustu.  Í mörgum tilvikum eru aðstæður beinlínis hættulegar sjúklingum jafnt sem starfsmönnum. 

Fáeinar niðurstöður slíkra rannsókna eru tilgreindar hér:

  • Einbýli hafa ótvíræða kosti fram yfir fjölbýli í nútíma sjúkrahúsþjónustu og með nýrri hönnun er hægt að mæta margvíslegum þörfum sjúklinga, líkamlegum jafnt sem andlegum.
  • Vist sjúklinga í fjölbýli með sameiginlegri salernisaðstöðu veldur því að sýkingar berast auðveldlega á milli þeirra. Með vist á einbýli má draga verulega úr tíðni sýkinga sem leitt geta til alvarlegra veikinda og dauða.
  • Í eldri sjúkrahúsbyggingum, þar sem mikið er um fjölbýli, þarf oft að flytja sjúklinga milli herbergja og deilda. Þessir flutningar auka hættu á að smitsjúkdómar berist milli sjúklinga og einnig er aukin hætta á mistökum, t.d. við lyfjagjöf. Úr þessu má draga með byggingu nýrra legudeilda þar sem eingöngu eru einbýli.
  • Í eldri sjúkrahúsbyggingum fer mikill tími til spillis vegna flutnings sjúklinga og langrar göngu starfsmanna til og frá sjúkrarúmi. Með breyttri hönnun er hægt að auka þann tíma sem fer í virka meðferð og umönnun sjúklinga og gæði meðferðar.
  • Loftræsting í eldri byggingum er víða ófullkomin. Góð loftræsting innan sjúkrahúsa dregur úr sýkingum sjúklinga og starfsfólks.
  • Erfitt er að virða mannhelgi og gæta fulls trúnaðar við sjúklinga í þeim sjúkrahúsbyggingum sem nú eru í notkun, m.a. eru aðstæður til einkasamtala slakar. Á einbýlum eru þær hins vegar góðar og auðveldara er fyrir heilbrigðisstarfsfólk og aðstandendur að ræðast við í þeim.
  • Byltur eru meðal algengustu óvæntra atvika á sjúkrahúsum. Þær geta valdið sjúklingum skaða og leiða stundum til lengri dvalar á sjúkrahúsi. Nútímahönnun sjúkrahúsa dregur umtalsvert úr byltum sjúklinga sem þar vistast.
  • Hávaði mælist umtalsvert meiri í eldri sjúkrahúsbyggingum en nýjum. Hann truflar hvíld og nætursvefn sjúklinga og veldur streitu. Ný hönnun með einbýlum dregur úr hávaða, bætir svefn og minnkar streitu sjúklinga.
  • Einbýli stytta legutíma og auka vellíðan sjúklinga.


Sú þekking á áhrifum sjúkrahúsumhverfis á meðferð og öruggi sjúklinga sem hefur fengist á undanförnum árumhefur breytt viðhorfum þeirra sem ábyrgð bera á rekstri sjúkrahúsa. Þetta hefur víða leitt til verulegrar endurnýjunar eldri sjúkrahúsa, m.a. í Bandaríkjunum, Bretlandi og Noregi. Nú er eindregið mælt með því að sjúklingar dvelji á einbýlum meðan þeir eru á sjúkrahúsum, fyrirkomulag legudeilda sé endurskipulagt, lögð áhersla á vingjarnlegt og hljóðlátt umhverfi og sérstaklega hugað að lýsingu og loftræstingu. 

Erfitt og kostnaðarsamt er að breyta húsnæði LSH og í raun ómögulegt að færa það í nútímahorf.  Nýjar sjúkrahúsbyggingar, sem þjóna þörfum Íslendinga á komandi árum, eru því nauðsynlegar. 
Uppbyggingu húsnæðis LSH verður ekki stefnt gegn forvörnum, þar er ekki spurning um annað hvort forvarnir eða nýjar sjúkrahúsbyggingar heldur þarf þetta hvort tveggja að vera í forgrunni íslenskrar heilbrigðisþjónustu á næstu árum. Á það má líka benda að þriðjungur legudaga á LSH er vegna sjúklinga sem eru 65 ára og eldri, þótt þeir séu aðeins um 12% þjóðarinnar.  Nýjar sjúkrahúsbyggingar eru því ekki síst öldruðum til hagsbóta. 

Ákveðið hefur verið að reisa hér byggingar fyrir nýtt háskólasjúkrahús. 
Uppbyggingin er nauðsynleg og hún verður landsmönnum til farsældar. 
Sameinumst í því framfaramáli.

Birtist einnig í Morgunblaðið 25. janúar 2006