• New national hospital

Sameining eflir kennslu, vísindi og rannsóknir

20. janúar 2006

Íslendingum er nauðsynlegt að hafa sjálfstætt og frambærilegt háskólasjúkrahús í landinu til að tryggja viðhald, þróun og gæði heilbrigðiskerfis sem landsmenn gera kröfu um og eiga rétt á samkvæmt lögum. Á háskólasjúkrahúsi er fléttað saman í daglegu starfi þjónustu við sjúklinga, kennslu heilbrigðisstétta og vísindarannsóknum. Einfalt dæmi sýnir þetta glöggt: Kandídat kemur á vakt kl. 11 að kvöldi. Fyrr um kvöldið hafði komið inn sjúklingur með mæði og á lungnamynd sást fjöldi lítilla hnúta. Á morgunfundi 9 klst. síðar er kandídatinn búinn að skanna inn lungnamyndina, lesa sér til í nýjustu fræðigreinum og útbúa 10 mínútna fyrirlestur um allt það nýjasta í greiningu og meðferð í svona tilvikum. 
Þetta vinnulag verður til þess að nýjasta vitneskja er borin fram fyrir þá sem eru í námi auk þess sem aðrir læknar,s.s. sérfræðingar í öðrum sérgreinum, rifja þarna upp og eru fræddir um það nýjasta hverju sinni.  Vinnubrögðin viðhalda og efla menntun starfsmanna, tryggja sjúklingum nýjustu meðferð og gera jafnframt kröfur til kennara um að fylgjast með og taka þátt í menntandi umræðu. Þau eru enn fremur ndirstaða gæðaúttekta og rannsóknarvinnu þar sem ný þekking verður til.

Á annað þúsund nemendur 
Menntun heilbrigðisstétta byggir annars vegar á kennslu í grunngreinum og hins vegar starfsþjálfun í heilbrigðiskerfinu. LSH er helsta kennslustofnun hér á landi í heilbrigðisvísindagreinum og á hverju ári stunda um 1100 nemendur nám á spítalanum til undirbúnings störfum í heilbrigðiskerfinu. Spítalinn er nú á um tuttugu stöðum á höfuðborgarsvæðinu og kennslan því dreifð. Það hindrar verulega þróun kennslunnar því mikilvægt er að samþætta fræðigreinar svo nemendur fái heildræna mynd af gerð og starfsemi líkamans og áhrifum sjúkdóma á líkama og sál.

Ný heildarstefna mótuð 
Mikilvægt er að ný heildarstefna verði mótuð um kennslu heilbrigðisstétta þar sem lögð er áhersla á þverfaglegt samstarf við úrlausn vandamála sjúklinga. Við undirbúning að nýrri spítalabyggingu hefur verið unnið skipulega að þessu markmiði. Háskóli Íslands (H.Í.) og LSH hafa ákveðið að færa saman kennslu þeirra heilbrigðisstétta sem eiga að vinna saman í framtíðinni og grunnkennslan verður í nánari tengslum við LSH en verið hefur, þá stofnun sem annast mestan hluta starfsþjálfunarinnar. Jafnframt hefur verið ákveðið að framtíðaruppbygging Tilraunastofu Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum verði á sameiginlegri lóð LSH og H.Í. Þannig tengjast betur þeir starfsmenn sem fremst standa í rannsóknum í heilbrigðisvísindum á Íslandi, þ.e. starfsmenn LSH, starfsmenn heilbrigðisvísindadeilda H.Í. og vísindamenn á Keldum. Fyrirsjáanlegt er að náið samstarf þessara hópa verði mikil hvatning til aukinna vísindastarfa hér á landi. 

Íslensk heilbrigðisvísindi og rannsóknir í alþjóðlegu ljósi 
Heilbrigðisvísindi eru alþjóðleg og samanburður við erlendar stofnanir því nærtækur. Íslenskir vísindamenn á þessu sviði hafa verið mjög virkir og gæði verka þeirra ótvírætt mikil. Það sést til dæmis á því að þeir hafa verið fremstir meðal jafningja í birtingu vísindagreina í erlendum fræðiritum og í þær er mikið vitnað. Þessi árangur hefur náðst þótt aðstæður sé oft ófullkomnar. Vísindarannsóknir krefjast sífellt aukinnar samvinnu milli hópa starfsmanna og bættrar rannsóknaraðstöðu. Við því þarf að bregðast. Tækniframfarir í heilbrigðisvísindum byggjast á árangursríkri rannsóknarvinnu. Leiðin frá rannsóknarstofunni að rúmstokknum er greiðust í lifandi og fersku háskólaumhverfi.Háskólasjúkrahús eru sjúkrahús þar sem besta tækni er hagnýtt til þjónustu við sjúklinga. Landspítali - háskólasjúkrahús hefur náð að standa undir þessum merkjum og virk háskólastarfsemi er undirstaða þess að hann geti enn sótt fram.

Að hugsa nýja hugsun 
"Vísindi eru að sjá það sem aðrir hafa áður séð og hugsa nýja hugsun" er haft eftir Nóbelsverðlaunahafanum Albert von Szent-Györgyi (1937). Þau byggingaráform sem nú eru uppi undirstrika skilning á mikilvægi náinnar samvinnu sérfræðinga svo háskólasjúkrahús geti vaxið, dafnað og gegnt sínu hlutverki. Sameiginleg uppbygging háskólastarfsemi og sjúkrahússtarfsemi er nauðsynleg til að þekking og kunnátta fámenns hóps sérfræðinga smáþjóðar nýtist sem best. Að hugsa nýja hugsun er kjarni háskólastarfs og undirstaða þríþættrar starfsemi og þjónustu háskólaspítala. Ánægjulegt er að nú gefst tækifæri til þess að skipuleggja þessa mikilvægu starfsemi í heild. Nauðsynlegt er að nýta það til hins ýtrasta og hafa í huga að vísindin efla alla dáð.

Birtist einnig í Morgunblaðið 20. janúar 2006