Byggingasagan skráð með drónamyndatökum

15. desember 2021

Regluleg myndataka af byggingasvæði nýs Landspítala er órjúfanlegur þáttur af starfseminni og er tilgangurinn bæði að skrá sögu framkvæmdanna en ekki síst að ná heildaryfirsýn á stöðuna hverju sinni. 

Frá því verkið hófst hefur verið flogið vikulega og teknar kyrr- og hreyfimyndir en þar sem starfsemin er mjög nálægt Reykjavíkurflugvelli hefur allt flug verið í samráði við, og með heimild frá flugturni, og einnig til að upplýsa um upphaf og endi flugs. Auk þess hefur NLSH verið veitt undanþágu frá Ísavía til að mega fljúga dróna nálægt flugvellinum. 

Morgunblaðið fjallaði um drónaflug þann 11.nóvember síðastliðinn og var sérstaklega vitnað til flugs NLSH yfir byggingasvæðið sem dæmi um samstarf milli hlutaðeigandi aðila. 

Drónar sem eru notaðir í atvinnuskyni eru háþróuð tæki með margvíslegum skynjurum og GPS en auk heimilda frá Ísavía og flugturni þarf að uppfæra hugbúnað drónans tímabundið til að hann geti tekið á loft á svæði þar sem flug er að öllu jöfnu óheimilt. Framleiðandi drónans hefur slíkt ferli sem er hraðvirkt og skilvirkt.