Horft til framtíðar – ástandsmat á eldra húsnæði Landspítala

17. desember 2021

NLSH er að hefja mat á ástandi alls húsnæðis Landspítala, segir Ingólfur Þórisson sviðsstjóri þróunarsviðs NLSH.

„Ákvarðanir um nýtingu húsnæðisins til framtíðar geta stuðst við matið þ.e. hversu vel húsnæðið hentar spítalanum, hversu auðvelt er að breyta því og einnig með tilliti til viðhalds, segir Ingólfur.

Húsnæði Landspítala er um 150.000 m2 og staðsett á mörgum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess er leiguhúsnæði um 11.000 m2. Stærstu starfsstaðirnir eru við Hringbraut um 60.000 m2 og í Fossvogi 30.000 m2.

Ríkiskaup auglýsir um helgina eftir hæfum aðilum til þess að taka þátt í ástandsmatinu.

„ Við vonumst til að fá hæfa aðila til að taka að sér þetta viðamikla verkefni. Ástandsmatið er byggt að norskri fyrirmynd og tekur til allra þeirra þátta sem nauðsynlegt er að skoða við endurmat á eldri byggingum spítalans. Við áætlun að þetta verkefni eigi eftir að taka um tvo mánuði og hefjast í febrúar, segir Ingólfur Þórisson.