• New national hospital

Djúpir eru Íslandsálar

25. janúar 2012

„Djúpir eru Íslandsálar, en þó munu þeir væðir vera," sagði tröllkonan sem ætlaði að vaða frá Noregi til Íslands. Íslenskir læknar í starfi ytra eru þó ekki eins bjartsýnir um heimkomu og tröllkonan forðum. Í huga þeirra er einkum tvennt sem veldur þeirri dökku sýn: Laun og önnur lífskjör eru betri í útlöndum en á Íslandi. Öll starfsaðstaða er víðast hvar til fyrirmyndar, oft svo að um munar. Hér er sérstaklega hafður í huga samanburður við stærsta vinnustað lækna á Íslandi, Landspítala-Háskólasjúkrahús. 



Nærtæk dæmi, sem undirritaður þekkir vel, er aðstaða augnlækningadeildar og hún er líka vettvangur kennslu læknanema í Háskóla Íslands. Þegar deildin var til húsa í Landakoti fór augnbotnamyndataka fram inni á litlu salerni við mikil þrengsli. Mörgum þiggjendum þjónustunnar varð oft illa brugðið en öðrum skemmt. Við sameiningu Landakotsspítala og Landspítala var augnlækningadeildinni holað niður í gömlu og aldeilis ófullnægjandi íbúðarhúsnæði í talsverðri fjarlægð frá öðrum byggingum spítalans. 

Skurðstofa fyrir augnaðgerðir í svæfingu er til að mynda í aðalbyggingu spítalans. Á leið sinni þangað sem oftar var undirritaður einu sinni nærri því að verða úti í aftakaveðri og stórhríð. Fjarlægðin á milli og fleiri ókostir, sem verða þó ekki tíundaðir hér, eiga sinn þátt í því að stór hluti göngudeildarþjónustunnar, megin stofns augnlækninga, hefur flust út í bæ og er starfrækt á mörgum stöðum, öllum til óþæginda og hefur um leið orðið til þess að rýra gæði sérhæfðrar þjónustu við sjúklinga. 

Nefna mætti mýmörg önnur dæmi um það hvernig starfsfólki á Landspítala og sjúklingum er misboðið með ófullnægjandi vinnuaðstöðu í þröngu og úreltu húsnæði á víð og dreif um borgina. 

Læknar í sérfræðinámi ytra og í starfi þar á sjúkrahúsum og heilsugæslu hafa kynnst húsakynnum sem fullnægja flestum kröfum um hentugleika og aðlaðandi vinnuumhverfi. Þeim liggur ekkert sérstaklega á að færa sig um set, yfir hafið. 

Eigi íslenskir læknar að geta tekið undir með skessunni þarf nýbygging Landspítala að verða að veruleika eins fljótt og auðið er. Þá munu þeir efalaust leggja á vaðið í átt til Íslands. 

En tíminn er að renna út.