• New national hospital

Nýr Landspítali fyrir þjóðina

27. janúar 2012

Lýður Árnason læknir ritar grein í Fréttablaðið 22. janúar sl. undir spurnarfyrirsögninni hvort nýr Landspítali sé fyrir þjóðina eða lækna. Hann spyr um þörf fyrir nýjan Landspítala.

Á meðfylgjandi súluriti sést fjöldi landsmanna í hverjum aldursflokki 2011 og áætlaður fjöldi árið 2025 samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar. Takið eftir mikilli fjölgun landsmanna sem eru 60 ára og eldri. Einnig er fellt inn línurit sem sýnir þörf á þjónustu Landspítala árin 2011 og áætlaða þörf 2025 eftir aldurshópum. Helstu notendur sjúkrahúsþjónustu er sá aldurshópur sem fjölgar mest. Fyrirhyggju þarf að hafa áður en þessi holskefla er risin að fullu. Af þessu má ráða að þörfin er raunveruleg nú þegar. Heilbrigðiskerfið þarf m.a. að byggja á öflugri heilsugæslu, svæðissjúkrahúsum og háskólasjúkrahúsi. Hvert og eitt þessara þjónustustiga þarf að virka eins og nútíminn krefst og þekking og tækni leyfa.
 
Framfarir á sviði heilbrigðisþjónustu hafa á síðustu árum og áratugum verið með ólíkindum og virðist hraði framfaranna sívaxandi. Á það rætur fyrst og fremst í aukinni sérhæfingu heilbrigðisstarfsmanna og nýrri og sérhæfðri rannsóknartækni. Þessi þróun er alþjóðleg og verður ekki snúið við. Tæknin krefst sérhannaðs umhverfis og samstarfs sérhæfðra starfsmanna. Dagar einyrkjastarsemi á sjúkrahúsum eru liðnir og í raun í allri heilbrigðisþjónustu sem einkennist æ meir af teymisvinnu. Svar þróaðra ríkja við þessu er sameining sjúkrastofnana í stærri einingar. Síst af öllum höfum við efni á að nýta ekki sérþekkingu heilbrigðisstarfsmanna eins og kostur er með því að sameina sérhæfðustu heilbrigðisþjónustu Landspítala á einn stað.
 
Vaxandi þekking á sambandi meðferðarárangurs og hönnunar sjúkrahúsa er einnig hluti framfaranna. Staðlar um sjúkrahúsbyggingar breytast hröðum skrefum í samræmi við það m. a. kröfur um loftræstingu. Lofthæð og burðarþol allra húsa Landspítala kemur í veg fyrir að nýjustu tækni verði við komið. Af sömu ástæðum er nú verið að úrelda og rífa stórar og að því er virðist stæðilegar sjúkrahúsbyggingar víða um lönd svo sem Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi og St. Olafs sjúkrahúsið í Þrándheimi svo nærtæk dæmi séu tekin. Eldri húsum Landspítala er ekki hægt að breyta svo þau mæti kröfum nútímans, hvað þá framtíðar. Stækkun Landspítala er afleiðing samfélagslegra breytinga sem felast í öldrun þjóðarinnar annars vegar og hraðfara faglegri þróun hins vegar. Martröðin sem greinarhöfundur sér fyrir sér að leiði af sýn forsvarsmanna spítalans um bætt húsnæði er miklu líklegra að snúast um afleiðingar þess að ekki hafi verið brugðist við þessum þáttum í tæka tíð.
 
Fullvíst má telja að Lýði Árnasyni sé annt um velferð sjúklinga þessa lands. Honum er því velkomið að koma á Landspítala og kynna sér aðstöðu sjúklinga og starfsmanna og núverandi áform um lausn vandans.