Drónamyndir varðveita framkvæmdasöguna

25. október 2023

Liður í skrásetningu framkvæmdanna hjá NLSH er að mynda byggingasvæðin með reglulegu millibili. Fjöldi flugferða er núna orðin 170 og tilgangurinn er bæði að verkkaupinn hafi yfirlit á stöðuna frá viku til viku en einnig að varðveita sögulegt efni til seinni tíma með 100 ára varðveislu í huga. Myndskeiðin eru tekin upp í 4K og allar ljósmyndir eru RAW. Auk ljósmyndanna sem verkkaupi varðveitir eru myndskeiðin tekin og sett á YouTube-rás NLSH. Hlekkur inn á þá síðu er á heimasíðu félagsins. 

Þar sem í augsýn eru framkvæmdir við stækkun á Grensásdeild Landspítalans og við Sjúkrahúsið á Akureyri eru þau svæði að bætast við í flugferðum. Þess má geta að þar sem byggingasvæðin eru á svæðum þar sem flug með dróna er takmarkað er bæði nauðsynlegt að hafa leyfi frá yfirvöldum og flugturnum og það samstarf hefur verið afar farsælt. 

Í gær, 24 október, viðraði afar vel til flugs norðan heiða og þá var tekinn hringur um sjúkrahúsið og svæðið einnig myndað þar sem til stendur að reisa nýbyggingu. Myndin með þessari frétt sýnir SAk, eins og það er skammstafað, í haustverðurblíðunni.