Flogið með dróna 150 sinnum yfir framkvæmdasvæðið

19. júní 2023

Frá upphafi framkvæmdanna við meðferðarkjarnann hefur það verið fastur liður að skrá framgang verksins með drónamyndatöku og klukkan sjö að morgni þann 16. júní voru þau tímamót að farið var í eitt hundrað og fimmtugasta flugið. Að jafnaði er flogið einu sinni í viku og eins og nærri má geta þarf stundum að sæta lagi með veður, birtu og vinda en að öllu jöfnu helst taktur í verkinu. Tilgangur myndatökunnar er bæði að sjá stöðu verksins hverju sinni en líka að skrá söguna og það verður væntanlega fengur í efninu eftir marga áratugi. Í hverju flugi eru bæði teknar ljósmyndir en líka hreyfimyndir og er upplausnin í 4K og sett á YouTube rás NLSH. Ljósmyndirnar eru samhliða orðnar 6.500 talsins. Drónar eru mikil undraverkfæri og við byggingaframkvæmdir birta þeir sýn sem annars væri einskorðuð við fuglinn fljúgandi.