Fréttir


Forskoðun á hugbúnaðarkerfum Landspítala

13. nóvember 2023

Það er ekki einungis steypa sem byggingarverkefni NLSH snúast um heldur einnig innviði af ýmsum toga. Nýlega var gerður samningur við Intellecta um forskoðun á hugbúnaðarkerfum og tæknilegum innviðum Landspítala. Intellecta er þekkingarfyrirtæki, sem m.a. sérhæfir sig í ráðgjöf og upplýsingatækni. Verkefnið verður unnið með undirverktaka Intellecta, Morten Thorkildsen Consulting AS í Noregi.

Forskoðunin er stöðluð úttekt samkvæmt aðferðafræði HIMSS samtakanna, þ.e. Electronic Medical Record Adoption Model (EMRAM) og Infrastructure Adoption Model (INFRAM). Fjöldi sjúkrahúsa út um allan heim hefur verið metinn með ofangreindri aðferðarfræði. Með því að beita henni fæst bæði góður samanburður og nákvæmt stöðumat, sem og greining valkosta til úrbóta. Markmiðið er að fá sem gleggsta mynd af stöðunni til að áætla hvort og hvar þurfi að gera ráð fyrir nýjum tækjum og búnaði á nýjum spítala. Á grunni þessa staðlaða stöðumats er einnig fyrirhugað að greina og skipuleggja verkefni á sviði upplýsingatækni í nýjum byggingum.