• New national hospital

Framtíð nýs Landspítala skýrist í fjárlögum

16. september 2013

Það skýrist í fjárlagafrumvarpinu sem lagt verður fram eftir tvær vikur hvort vinna við byggingu nýs Landspítala heldur áfram.  Fram kemur í máli Gunnars Svavarssonar formanns byggingarnefndar nýs Landsspítala að tryggja þurfi verkefninu rúmlega 100 milljónir í fjárlögum ef ljúka eigi fullnaðarhönnun vegna minnsta hluta verkefnisins sem er sjúkrahótelið.

 

Fréttina má sjá hér:

Stöð 2

Framtíð nýs Landspítala skýrist í fjárlögum

Það skýrist í fjárlagafrumvarpinu sem lagt verður fram eftir tvær vikur hvort vinna við byggingu Nýs Landspítala heldur áfram. Gunnar Svavarsson, formaður byggingarnefndar vegna spítalans, segir að tryggja þurfi verkefninu rúmlega 100 milljónir í fjárlögum ef ljúka á fullnaðarhönnun vegna minnsta verkhluta verkefnisins. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: "Húsakostur Landspítala er óviðunandi. Leggja þarf áherslu á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti stofnunarinnar þar til varanleg lausn fæst." Gagnályktað hefur verið frá þessu á þann veg að ekki sé á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að ljúka byggingu nýs Landspítala. Samt er undirbúningur vegna verkefnisins langt á veg kominn og fyrr á þessu ári lauk forvali vegna útboða í 58.500 fermetra meðferðarkjarna og um 14 þúsund fermetra rannsóknarhús við Landspítalann. Deiliskipulag vegna spítalans var unnið í vor og ekki kært. Gunnar Svavarsson, formaður stjórnar Nýs Landspítala ohf. og formaður byggingarnefndar vegna spítalans, segir að framhaldið ráðist í fjárlögum næsta árs og næstu ára. Þorbjörn Þórðarson: Þannig að ef að ekki verður gert ráð fyrir fjárveitingum til verkefnisins á fjárlögum næsta árs er þá sjálfhætt?

Gunnar Svavarsson, formaður stjórnar Nýs Landspítala:

„Já, og eða þá það að eigandi verkefnisins sem er ríkið og ríkisvaldið taki ákvörðun um að skoða verkefnið á annan hátt eða þá að í sjálfu sér bíða með það að verkefnið haldi áfram.“

Kristján Þór Júlísson, heilbrigðisráðherra, sagði í þættinum Pólitíkinni með Höskuldi Kára Schram á Vísi að ótímabært væri að fara af stað með byggingu spítalans í heild sinni núna en sagðist tilbúinn að skoða minni útfærslur. Þorbjörn: Hvað þarf mikla fjárveitingu til verkefnisins á fjárlögum næsta árs til að koma því áfram á næsta fasa?

Gunnar Svavarsson: Það fer allt eftir því hvaða verkhlutar eru teknir áfram. Minnsti verkhlutinn er sjúkrahótelið og til þess að halda því áfram og klára fullnaðarhönnun þá þarf um rúmar 100 milljónir á fjárlögum næsta árs til þess að það væri hægt að bjóða út fullnaðarhönnun í því verki.“