Hönnun og uppsetning á útveggjum (e. Curtain wall)

12. desember 2023

Útveggir meðferðarkjarna eru hannaðir og steyptir með sérstakar jarðskjálftakröfur í huga. Steyptu rammaopin á útveggjum gefa því ekkert endilega til kynna að um gluggaop sé að ræða. Það er innra skipulag sem ræður staðsetningu gluggaopa en þar er tekið mið af starfsemi innanhúss í hverju tilfelli fyrir sig. Útveggjaeiningarnar sjálfar eru m.a. hannaðar með þetta sama fyrir augum, þ.e. innra skipulag og starfsemi sem og vegna sérstakra jarðskjálftakrafna. Það er því verk- og tæknifræðileg hugsun á bak við skiptingu útveggjaeininganna á milli hæða, en í jarðskjálfta eiga útveggjaeiningarnar að „dansa saman“ á ákveðinn hátt. Því gæti því reynst villandi að sjá t.d. útveggjaeiningar sem ná langt upp fyrir tiltekna hæð og/eða jafnvel ná ekki upp í plötubrún hæðar fyrir ofan.