• New national hospital

Hvað felst í einu orði?

15. desember 2011

Því er ekki að neita að undirritaður varð fyrir miklum vonbrigðum með það hvernig fyrirhuguð nýbygging Landspítalans var afgreidd með einu einasta orði í síðasta hefti Lyfjatíðinda: „risaspítali”. Skilja mátti hugarflug ritstjórans sem svo að núverandi byggingar, sem flestar eru 30 til 80 ára gamlar, væru fullgóðar fyrir starfsemina, á sama hátt og flugstöðin gamla við Reykjavíkurflugvöll væri „alveg passleg fyrir 300 þúsund manna örsamfélag.” Landspítalinn er þó alls ekki gömul, lúin og vinaleg flugstöð. Hann er í dag hátæknisjúkrahús með 40 sérgreinum lækninga og 20 sérþjónustugreinum sem taka við rúmlega 100 þúsund nýjum sjúklingum árlega í um það bil 450 þúsund heimsóknum. Þar eru gerðar um 14 þúsund skurðaðgerðir og um 1,5 milljónir sérhæfðra rannsókna af ýmsu tagi.

Þeir starfsmenn og sú starfsemi, sem hefur lengi búið í ónýtum húsum spítalans, bíður með óþreyju eftir nýrri og boðlegri aðstöðu. Í tilviki undirritaðs hefur það verið starfsemi sérhæfðrar rannsóknastofu í svonefndum „bráðabirgðahúsum”, þunnveggja stálgrindahúsum, sem upphaflega áttu að standa í 5-10 ár, en eru nú orðin yfir 30 ára gömul. Þau hafa lengst af hvorki haldið vatni né vindi og hafa sjálfsagt kostað meira í endurteknu viðhaldi en ný og boðleg steinhús. Þessi bráðabirgðahús eru þó ekki algjört einsdæmi á lóðum spítalans. Í einu af steinsteyptu rannsóknarstofuhúsunum var regnvatnslekinn lengi vel svo mikill, gegnum þak og ónýta glugga, að útbúnar voru vatnsrennur innan á veggjum til að leiða lekavatnið um gúmmíslöngur niður í lausar fötur.

Hefði ritstjórnargreinin og orðið „risaspítali” beinst að upphaflegri byggingaráætlun frá bólutímanum, þar sem stærð fyrirhugaðra nýbygginga nam samtals 120 þúsund fermetrum, má vera að ekki væri ástæða til umkvörtunar. Núverandi teikningar hafa hins vegar orðið niðurskurðinum að bráð, þannig að nú er gert ráð fyrir 66 þúsund fermetra nýbyggingum á Hringbrautarlóðinni til að sameina alla þá starfsemi Landspítalans, sem rekin er í 100 byggingum á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Samanlagt munu núverandi byggingar Landspítalans telja 153 þúsund fermetra, sem ef til vill mætti þá nefna „ofurspítala”. Þar af eru 30 þúsund fermetrar í Fossvogi, en sameining þeirrar starfsemi við starfsemina á Hringbraut er lykilatriði í þeirri 3ja milljarða króna árlegu rekstrarhagræðingu sem nást á með sameiningunni.

Sameining Landspítalans býður upp á framþróun núverandi starfsemi og nýja hugmyndafræði í þjónustu við sjúklinga. Þannig á að leitast við að fækka innlögnum sjúklinga og stytta dvalartímann enn frekar með aukinni starfsemi á dagdeildum og göngudeildum, auk sjúkrahótels fyrir þá sem þurfa ekki nauðsynlega vistun á dýrum og sérhæfðum legudeildum. Sameina á deildir, sem nú eru reknar á tveimur stöðum, svo sem skurðstofur, gjörgæsludeildir, röntgendeildir, rannsóknadeildir, bráðamóttökur og margt fleira. Með þessu næst fram sú mikla rekstrarhagræðing og sá peningalegi sparnaður sem stefnt er að með nýbyggingunni. Landspítalinn er þjóðarsjúkrahús og hefur það hlutverk að veita Íslendingum þá almennu og sérhæfðu sjúkrahúsþjónustu sem þeir ætlast til að fá. Á spítalanum liggja að meðaltali 550 sjúklingar og á dag- og göngudeildir spítalans koma um 1400 sjúklingar daglega til meðferðar og eftirlits. Þar starfa nú um 4700 manns í 3600 stöðugildum. Þetta er hinn eiginlegi „risaspítali” þjóðarinnar sem á skilið að fá hliðholla og málefnalega umfjöllun á síðum blaðsins.