Landspítalinn - fjöregg þjóðarinnar

26. október 2015

Reynir Arngrímsson og Guðríður Kristín Þórðardóttir, formenn lækna – og hjúkrunarráðs Landspítala, skrifa grein í Morgunblaðið þann 24.október sem ber yfirskriftina „Landspítali – fjöregg þjóðarinnar“.


Í grein þeirra kemur fram að mikilvægt sé að það verði engar tafir á byggingu nýs sjúkrahúss. Endurnýjunarþörf húsnæðisins sé þannig að brýn nauðsyn sé á því að hefja framkvæmdir við að bæta húsakost Landspítala.


Handrit úr grein þeirra má sjá hér:


Aðalfundir hjúkrunarráðs og læknaráðs Landspítala hafa á undanförnum árum ítrekað vakið athygli á nauðsyn þess að taka af festu á húsnæðismálum þjóðarsjúkrahússins. Bæði þarf að endurnýja húsnæði fyrir grunnstarfsemi spítalans, bráðaþjónustu og meðferðar- og legurými og rannsóknarhús. Viðhald alls eldra húsnæðis spítalans hefur mátt sitja á hakanum þegar rekstrarframlög til spítalans drógust saman um 20% á undanförnum árum. Endurnýjun húsnæðis er aðkallandi og mun gjörbreyta aðstæðum fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra.

Sjúklingar sem leggjast á Landspítala eru mun veikari en áður og þurfa flóknari og sérhæfðari þjónustu. Í umgangspestum yfirfyllast trekk í trekk legudeildir og gjörgæsla. Sjaldnar er borð fyrir báru og rúmanýting hættulega há og sjúklingar lagðir á ganga og geymslurými. Dvalartími á skammtímaeiningu bráðamóttökunnar hefur þróast í að vera óæskilega og í sumum tilvikum hættulega langur. Nýr meðferðarkjarni með sameiginlegri bráðamóttöku og legudeildum mun gjörbylta allri aðstöðu til að sinna sjúklingum spítalans.

Eftir hverju bíðum við? Áhætta og óþægindi fyrir sjúklinga hljótast af því að spítalinn er á mörgum stöðum og kostnaður vegna flutninga milli húsa eykst ár frá ári. Húsnæðið ógnar öryggi sjúklinga, sér í lagi ef horft er til sýkingavarna.

Dæmin sanna að það getur reynst heilsuspillandi fyrir sjúklinga og starfsfólk. Lífsnauðsynlegt er að sameina móttökur bráðveikra á einn stað. Landspítali er þjóðarsjúkrahús Íslendinga og það eru hagsmunir landsmanna allra að húsnæðið sé endurnýjað og fært að kröfum nú- tímans. Nú er svo komið að skammtalækningar duga ekki lengur. Endurreisa þarf grunnstoð íslensks heilbrigðiskerfis sem Landspítalinn er, svo hann geti tekist á við bráðaverkefni líðandi stundar. Lagt grunn að framþróun heilbrigðisþjónustu í landinu og verið sá bakhjarl sem íbúar landsins þurfa í veikindum. Grunnstoð í menntun heilbrigðisstarfsfólks og vísindum. Þeirra sem taka við keflinu og hinna sem þurfa á þekkingu og velþjálfuðu og samhentu starfsfólki að halda í veikindum sínum.

Það verður ekki gert nema með verulega auknu fjármagni til reksturs spítalans og fyrir nýjum framkvæmdum og skilningi stjórnvalda á hlutverki spítalans. Hjúkrunarráð og læknaráð hafa ítrekað ályktað um mikilvægi þess að flýta uppbyggingu nýs meðferðarkjarna og rannsóknarhúss og varað við þeirri hættu sem fylgir því að framkvæmdir dragist á langinn. Útilokað má telja að ná fram frekari hagkvæmni í rekstri fyrr en hin dreifða starfsemi spítalans hefur verið sameinuð og rekin á einum stað. Við hvetjum stjórnvöld til að finna leiðir til að hraða áætlunum og tryggja fjármögnun til að bæta húsakost Landspítala.