Meðferðarkjarninn er hannaður til að standa fullstarfhæfur eftir stærstu jarðskjálfta

17. maí 2021

Meðferðarkjarninn er hannaður til að standa fullstarfhæfur eftir stærstu jarðskjálfta segir Eysteinn Einarsson, byggingarstjóri meðferðarkjarna og staðarverkfræðingur hjá NLSH.

Helsta hönnunarviðmiðið er að nýi meðferðarkjarninn verði starfhæfur eftir stærstu skjálfta sem talið er að geti orðið á þessu svæði,“ segir Eysteinn.

„Horft er til jarðskjálfta sem verða við Bláföll og Brennisteinsfjöll og svæðið þar í kring því þeir hafa mest áhrif á Hringbrautarsvæðið,“ segir Eysteinn og að miðað sé við að slíkir sjálftar geti verið á bilinu 6 til 7 á Richter.

„Það má í raun ekkert skemmast. Öll tæknikerfi, innveggir, útveggir og allt annað þarf að standa í stað. Þá má búnaður, eins og skurðtæki og önnur slík, ekki verða fyrir tjóni.“ Þetta kalli ekki aðeins á öflugara burðarvirki, heldur þurfi að festa allan búnað rétt niður og tryggja að hann þoli hreyfingar mannvirkisins í jarðskjálfta.

„Passa þarf að búnaður og tæki fari ekki af stað og skemmist eða valdi slysum á fólki,“ segir hann. „Einnig að allir smáir munir; eins og myndir og hlutir í hillum fari ekki af stað í skjálfta. Ekki er aðeins hugað að því að byggingin standi jarðskjálfta af sér heldur eru einnig gerðar miklar kröfur um að sem allra minnstur titringur sé í öllum gólfum þar sem starfsemin er viðkvæm fyrir honum.“

Eysteinn segir stefnt að því að ljúka við að steypa nýja Landspítala seinni hluta októbermánaðar 2023. Fyrirtækið Eykt sjái um uppsteypuna í grunninum sem ÍAV hafi grafið. Nýi meðferðarkjarninn sé sex hæðir, ofan götu, auk tveggja kjallara.

Eysteinn segir ekki búið að bjóða út aðra verkþætti en uppsteypuna og það sé í undirbúningi.

„Meðferðarkjarninn hýsir flókna og margbreytilega hátæknistarfsemi sem er í stöðugri og hraðri þróun. Því er gert ráð fyrir sveigjanleika í húsnæðinu,“ segir hann. „Þarfirnar eru því stöðugt að breytast. Þetta er einstakt mannvirki hér á Íslandi.“

Hönnuðir og ráðgjafar séu margir: Corpus3 sem samanstandi af fjórum fyrirtækjum; Hornsteinum, Basalt, VSÓ Ráðgjöf og Lotu. Þá séu margir undirráðgjafar sem komi að hönnun meðferðarkjarnans, m.a. Buro Happold Engineering.