Nútímakröfur kalla á nýtt húsnæði

20. september 2012

Núverandi húsnæði getur ekki lengur tekið við þeim tækjabúnaði sem þarf til að nútímalækningar verði stundaðar vegna skorts á rými, lofthæð og burðarþoli, að því er kemur fram í grein Jóhannesar M. Gunnarssonar, læknisfræðilegs verkefnisstjóra Nýs Landspítala sem birt var í Fréttablaðinu í dag.

„Breytt hlutverk Landspítala, aukin þekking á samhengi hönnunar húsnæðis og meðferðarárangri, ný og fyrirferðameiri tæki og kröfur sjúklinga og aðstandenda til að friðhelgi einkalífs sé virt kallar allt á nýtt húsnæði spítalans,“ segir í greininni.  

Þar kemur einnig  fram að spítalanum hafi verið valinn staður við Hringbraut meðal annars vegna þess að þar eru fyrir byggingar sem hægt er að nýta. Ef spítalinn yrði byggður á öðrum stöðum sem nefndir hafa verið, eins og á Vífilsstöðum, Hólmsheiði eða Geirsnefi má gera ráð fyrir að kostnaður yrði þrefalt meiri en gert er ráð fyrir samkvæmt núverandi áformum um byggingu við Hringbraut.

Sparnaður í rekstri 2,6 milljarðar 
„Úrbætur í húsnæði spítalans munu létta á ríkissjóði. Núverandi rekstur kostar ríkissjóð 2,6 milljarða kr. á ári umfram það sem vera þyrfti ef bráðastarfsemin væri á einum stað í nútímalegu húsnæði, 7 milljónir kr. á dag. Byggingaráformin eru ekki aðeins hagur sjúklinganna fyrst og fremst heldur bráð nauðsyn. Ábati ríkissjóðs, hagur starfsmanna og hagur atvinnulífsins kemur þar á eftir en eru engu að síður mikilvægir þættir,“ segir ennfremur í greininni.

Grein Jóhannesar