• New national hospital

Nýr Landspítali: Rétt staðsetning – annað væri sóun!

7. janúar 2012

Allstórt svæði sunnan gömlu Hringbrautar hefur verið ætlað til uppbyggingar Landspítala samkvæmt skipulagi Reykjavíkurborgar frá árinu 1976. Það er því ekki nýlunda að byggja eigi upp sjúkrahússtarfsemi á lóðinni við Hringbraut.

Megintilgangur nýbyggingarinnar er að flytja starfsemina úr Fossvogi og sameina hana starfseminni á Hringbraut. Hafa þarf í huga að nú þegar er helmingur af starfsemi Landspítala við Hringbraut, fjórðungur er í Fossvogi og fjórðungur annarsstaðar. Stærstur hluti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands er þegar við Hringbraut.

Hringbraut hagkvæmasti kosturinn – staðsetningin ákveðin árið 2002
Eftir sameiningu spítalanna í Reykjavík árið 2000 fór fram mat á framtíðar uppbyggingu Landspítala. Ráðherraskipuð nefnd skilaði skýrslu árið 2002 um staðarval. Samráð var haft við Reykjavíkurborg. Samdóma álit nefndarinnar var að lóðin við Hringbraut hentaði best. Þungt vóg að á Landspítalalóðinni er fyrir 60.000 m² sjúkrahúsbygginga sem sumar nýtast spítalanum til langrar framtíðar svo sem barnaspítalinn. Reykjavíkurborg útilokaði að hægt væri að byggja tengingar Borgarspítalalóðarinnar við stofnbrautir borgarinnar og nú hefur stór hluti þeirrar lóðar verið tekinn til annarra þarfa. Samningur ríkis og Reykjavíkurborgar um lóðina við Hringbraut var undirritaður 2004. Möguleikar til frekari þróunar spítalans eru til staðar á 22 hektara lóð.

Landspítalinn er mikilvægur hlekkur í þeim þekkingarklasa sem hefur myndast við Vatnsmýrina. Nálægð við Háskóla Íslands, Háskóla Reykjavíkur, Hús Íslenskrar erfðagreiningar og fyrirhugaða Vísindagarða styrkir þekkingarmiðju borgarinnar á þessu svæði.

Umræða um umferðaröngþveiti stórlega yfirdrifin
Frá þeim tíma að samningur um lóðina var undirritaður hafa borgaryfirvöld lagt vaxandi áherslu á þéttingu byggðar vestan Elliðaáa. Með því færist miðja íbúabyggðar í vesturátt, en hún mun nú vera nálægt miðju Fossvogshverfisins. Ekki hafa komið fram ábending um stað fyrir spítala sem betur tengist almenningssamgöngum eða stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins. Gerð hafa verið umferðamódel, kannanir um ferðavenjur starfsmanna spítalans, sjúklinga og heimsóknargesti svo og könnun á búsetu starfsmanna. Niðurstöður alls þessa benda eindregið til að tal um umferðaröngþveiti kringum spítalann nú og í framtíðinni sé stórlega yfirdrifið. Rúmlega 55% sjúklinga og gesta sem erindi eiga á spítalann komast þangað á minna en 10 mínútum og 84% á minna en 20 mínútum. Tæpum 90% starfsmanna finnst auðvelt að komast til og frá vinnustað. Samkvæmt skýrslu Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar frá 16. desember 2011 er umferðaraukningin eftir 1. áfanga nýs Landspítala ekki af þeirri stærðargráðu að gera þurfi víðtækar ráðstafanir í gatnakerfinu.

Uppbygging „annars staðar“ margfalt dýrari og kallar á mikla umferðaraukningu
Hugmyndir eru um að best sé að byggja spítalann upp á alveg nýjum stað. Bent hefur verið á aðra staði sem hugsanlega kosti. Ef slíkur kostur væri valinn þarf að byggja spítalann í heild sinni frá grunni og verður ekki gangsettur fyrr en allt er fullbyggt. Áætlað er að slík fjárfesting sé margföld sú sem nú er áformuð. Þegar talað er um staðarval er mikilvægt að bornir séu saman aðrir raunverulegir valkostir til að geta metið kosti og galla. Ef Landspítalinn færi hins vegar mjög austarlega í borgina yrði það til þess að svo til allir starfsmenn þyrftu að koma til vinnu á einkabíl í stað tæpra 70% nú, með enn stærri bílastæðaþörf og auknum akstri um höfuðborgina. Samanburður á ólíkum valkostum bendir ávallt á Hringbraut sem hagkvæmasta kostinn.

Þessu til viðbótar má nefna að sameinaður Landspítali verður um 4.500 manna vinnustaður, hann mun auka fjölbreytileika mannlífsins í miðborg Reykjavíkur og styrkja hana sem íbúa- og þjónustusvæði. 

Vinna nefndar um staðsetningu spítalans var vönduð vinna á sínum tíma og hefur staðist tímans tönn. Þegar allir þættir máls eru skoðaðir og þær upplýsingar sem fyrir liggja notaðar, er niðurstaðan að besti staðurinn sé við Hringbraut.