Nýr Landspítali semur við Eykt um uppsteypu á nýju þjóðarsjúkrahúsi

5. október 2020

Útboð á uppsteypu meðferðarkjarna Nýs Landspítala var haldið í framhaldi af niðurstöðu forvals, þar sem fimm þátttakendum var gefin þátttökuheimild í útboðinu. Að lokinni yfirferð NLSH á tilboðsgögnum, tilkynnti NLSH bjóðendum fyrir nokkru val á bjóðanda, í samvinnu við Ríkiskaup.

Ákveðið var að tilboð Eyktar hf. yrði valið og gengið yrði til samninga við fyrirtækið, í samræmi við lög um opinber innkaup nr. 120/2016.

Tilboð Eyktar er 8,68 milljarðar kr, um 82% af kostnaðaráætlun sem er 10,5 milljarðar kr. án vsk. Jarðvegsframkvæmdum við grunn hússins gengu vel og er lokið, en ÍAV hf. sá um þann þátt. Nýr meðferðarkjarni verður um 70.000 fermetrar að stærð. Áætlanir NLSH eru þær að uppsteypan geti hafist í nóvember nk. og framkvæmdatími verksins er um þrjú ár.

„Þetta er einn af stærri áföngum í Hringbrautarverkefninu og unnið hefur verið að undirbúningi þessa skrefs um langan tíma, í framhaldi af hönnun verksins. Fjölmargir hafa komið að rýni og umsagnargerð, þakkir til allra þeirra en ekkert síður þeirra sem tóku þátt í forvalinu og útboðinu og sköpuðu samkeppnisgrundvöll um verkið. Fram undan er vissulega mikilvægt uppsteypuverkefni, en það eru einnig fjölmargir aðrir verkþættir handan við hornið s.s. útboð á jarðvinnu rannsóknahússins og alútboð eftir forval á bílastæða- og tæknihúsinu, en forvalið verður opnað á morgun. Fjárlagafrumvarpið boðar aukinn kraft í Hringbrautarverkefnið og er ég ekki í vafa um að Alþingi mun styðja verkefnið áfram af fullum þunga“ segir Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri NLSH ohf.

Páll Daníel Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eyktar hf., segir að „fyrirtækið sé vel undirbúið fyrir þetta stóra uppsteypuverk, sem er eitt af þeim stærri í Íslandsögunni. Reynsla okkar og allur aðbúnaður er á þeim stað að við munum strax ráðast í verkefnið af fullum krafti. Það verða um þrjú hundruð manns á okkar vegum þegar mest verður og við munum auðvitað sækjast eftir að takast á við fleiri þætti í Hringbrautarverkefninu en eingöngu þennan. Okkur þykir mikið til þess koma að hafa tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu á nýja þjóðarsjúkrahúsinu“.