• New national hospital

Nýr spítali – miðstöð þjónustu, þekkingar og nýsköpunar

2. febrúar 2008

Íslendingar eru flestum þjóðum langlífari og ungbarnadauði er fátíðari hér en víðast hvar. Heilbrigði þjóðarinnar er meðal þess sem skipar Íslendingum í fremstu röð á samanburðarlistum yfir velsæld. Hér hefur byggst upp samfélag sem einkennist af háu menntunarstigi, efnahagslegri velsæld og góðri almennri heilbrigðisþjónustu. 

Háskóli Íslands og Landspítali – öflugt samstarf

Sjúkrahús eru almennt talin skila bestum árangri þegar sterk tengsl eru á milli þjónustu við sjúklinga og aðstandendur og menntunar- og vísindahlutverks. Á sama hátt eru gæði menntunar heilbrigðisstarfsmanna háð nánum tengslum háskóla við framsækin sjúkrahús. Það hefur skipt máli við uppbyggingu heilbrigðisþjónustu og heilbrigðismenntunar hér á landi að stjórnvöld menntamála og heilbrigðismála hafa beitt sér fyrir því að byggja þessa þætti upp samhliða og í náinni samvinnu.
Á nýjum matslista U.S. News & World Report yfir bestu sjúkrahús í Bandaríkjunum eru öll sjúkrahús í efstu sætum rekin í nánu samstarfi við mennta- og vísindastofnanir. Sama á við í Evrópu. Landspítalinn og Háskóli Íslands hafa um árabil átt mjög náið og gjöfult samstarf. Háskóli Íslands og Landspítalinn hafa sameiginlega kappkostað að byggja upp sjúkraþjónustu, menntun og aðstæður til þekkingar- og nýsköpunar í heilbrigðisvísindum. Þessi samvinna hefur átt mikilvægan þátt í að skipa íslenskri heilbrigðisþjónustu í fremstu röð í alþjóðlegum samanburðarmælingum. Hún hefur stuðlað að færni íslenskra lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna og á hlut í frábærum árangri íslenskra vísindamanna á þessum sviðum. Þetta fólk er eftirsótt til samstarfs og starfa í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. 

Vísindasamstarf Háskóla Íslands og Landspítalans hefur leitt til aukins skilnings á orsökum, meðhöndlun og fyrirbyggingu sjúkdóma hjá börnum, fullorðnum og öldruðum. Þetta hefur leitt til betri umönnunar sjúklinga og samskipta við aðstandendur. Í virtustu alþjóðlegu vísindatímaritum er mikið vitnað í niðurstöður íslenskra vísindamanna á heilbrigðissviði. Þannig leggja þeir af mörkum til alþjóðasamfélagsins auk starfa í þágu íslensks samfélags. Starfsfólk og stúdentar í hjúkrunarfræði, læknisfræði og tannlæknisfræði hafa farið til vinnu í þróunarlöndum og þannig lagt af mörkum þar sem neyð er mest í heiminum. Starfsmenn Háskóla Íslands og Landspítala hafa aflað stórra alþjóðlegra styrkja í gífurlega harðri samkeppni og eru eftirsóttir ritstjórar virtra erlendra vísindatímarita. Allt eru þetta vissulega skýrar vísbendingar um árangur af samstarfi spítala og skóla. 

Starfsmenn, stúdentar, meistara- og doktorsnemar hafa lagt af mörkum til nýsköpunar, í samstarfi við leiðandi innlendar og erlendar stofnanir og fyrirtæki. Afkastamikið samstarf hefur til að mynda verið við Íslenska erfðagreiningu, Hjartavernd, Össur hf., Matís ohf., Nimblegen, Actavis og fleiri íslensk fyrirtæki.

Stúdentar úr heilbrigðisvísindagreinum Háskóla Íslands fá jafnan inngöngu í framhaldsnám við bestu og kröfuhörðustu háskóla heims og hafa náð glæsilegum árangri í inntökuprófum og stöðluðum prófum sem notuð eru við bandaríska háskóla. Niðurstöðurnar staðfesta gæði kennslu sem fram fer í náinni samvinnu Háskóla Íslands og Landspítalans. Þetta fólk skilar sér til starfa hér heima og á mikilvægan þátt í að íslenska heilbrigðiskerfið skilar okkur jafn góðum árangri í alþjóðlegum samanburði og raun ber vitni. 

Það er ekki sjálfgefið að fámenn þjóð nái jafn framúrskarandi árangri og raun ber vitni. Árangurinn endurspeglar gífurlegan metnað, ósérhlífni og þrotlausa vinnu. 

Nýtt háskólasjúkrahús

Hugmyndir um nýjan spítala í Reykjavík eiga sér alllanga forsögu. Ein meginforsenda sameiningar spítalanna tveggja í Reykjavík var sú að byggt yrði undir starfsemi þeirra á einum stað til hagræðingar í rekstri og faglegri umönnun. Staðsetningin var valin að vandlega athuguðu máli og réð þar mestu að spítali við Hringbraut var talinn hagkvæmastur þeirra kosta sem athugaðir voru, m.a. vegna þeirra bygginga sem fyrir eru á lóðinni. Staðarvalið tók jafnframt mið af nálægðinni við Háskóla Íslands. Með ákvörðun ríkisstjórnar Íslands árið 2005 að verja 18 milljörðum af söluandvirði Símans til uppbyggingar nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut var traustum stoðum rennt undir þetta mikilvæga verkefni. 

Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að undirbúningi framkvæmda við nýjar byggingar fyrir Landspítalann og heilbrigðisvísindagreinar Háskóla Íslands. Mikill fjöldi starfsmanna hefur komið að þessu verkefni til að tryggja að skipulag bygginganna þjóni starfseminni sem best. Þessi vinna hefur leitt vel í ljós hversu samofin starfsemi þessara stofnana er og í ljós hafa komið samlegðaráhrif og ótvíræður sparnaður þess að hafa starfsemina á einum stað. Um þessar mundir er nefnd heilbrigðisráðherra að störfum sem ætlað er að gera úttekt á stöðu verkefnisins og vinna áætlun um áfangaskiptingu og fjármögnun framkvæmda. 

Skipulag nýs spítala tekur fyrst og fremst mið af þörfum sjúklinga og aðstandenda. Háskólasjúkrahús hefur jafnframt ríkar skyldur sem kennslu- og rannsóknastofnun. Þær áætlanir, sem nú liggja fyrir, gera kleift að rækta þessar skyldur. Nálægð við Háskóla Íslands treystir undirstöður þekkingarsköpunar á sjúkrahúsinu og skapar um leið frjóan jarðveg til kennslu nemenda í heilbrigðisvísindagreinum. Til þeirra teljast læknisfræði, hjúkrunarfræði, lyfjafræði, tannlæknisfræði, sjúkraþjálfun, næringarfræði, sálfræði, lýðheilsufræði, ljósmóðurfræði, matvælafræði, geislafræði og lífeindafræði. 

Með samstarfi ná Háskóli Íslands og Landspítalinn að samnýta krafta sína, til mikilla hagsbóta fyrir samfélagið. Með byggingu nýs spítala er verið að skapa nauðsynlegri þjónustu umgjörð sem tryggir tvennt í senn. Annars vegar að hægt sé að veita bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á í dag og hins vegar að skapaður sé grunnur fyrir stöðugar framfarir í þessari mikilvægu þjónustu.