• New national hospital

Nýr LSH fyrir alla

26. apríl 2012

Stjórnvöld hafa um langt skeið undirbúið byggingu nýs Landspítala-háskólasjúkrahúss(LSH). Undirbúningi hefur verið stýrt og ýtt áfram af ráðherrum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og nú Samfylkingar. 

Um byggingu nýs spítala hefur því ríkt þverpólitísk samstaða. Borgarstjórn hefur einnig komið að vinnunni með margvíslegum hætti að ógleymdu starfsfólki spítalans. Mikil umræða hefur átt sér stað á undanförnum árum um staðsetningu spítalans og stærð. 



Nefndir hafa verið skipaðar til að endurskoða báða þessa þætti og varð niðurstaðan sú að hagkvæmast og réttast er að byggja spítalann við Hringbraut, en við endurmat vorið 2009 var verulega dregið úr stærðinni og uppbyggingunni skipt í áfanga. Verkefnið byggir á lögum nr. 64/2010 og viljayfirlýsingu við 25 lífeyrissjóði frá haustinu 2009 og markviss skref hafa verið tekin síðustu ár í undirbúningi. Okkur ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði. 

Þrátt fyrir allan undirbúninginn heyrast ýmsar úrtöluraddir við og við. Ein slík segir að það sé rangt að nota fjármagn í nýjan LSH þegar skorið er niður til sjúkrahússtarfsemi á landsbyggðinni. Benda má á í þessu sambandi að niðurskurðurinn á LSH hefur líka verið umfangsmikill. Aðalatriðið er þó að með nýjum LSH má hagræða verulega í rekstri spítalans, um allt að 2,7 milljarða á ári, en nýleg norsk hagkvæmniathugun sýndi fram á þær tölur. 

Munar um minna því rekstur sjúkrahúss er aðalatriðið í kostnaði ríkisins en ekki byggingarkostnaður. Segja má að skelin kosti nánast ekkert í heildarsamhengi miðað við launakostnað, lyfjakostnað og annað slíkt. Það blasir því við að mun líklegra er að nýr LSH, þar sem rekstrarkostnaður er lægri, minnki þrýsting á að herða ólina að sjúkrahúsþjónustu um allt land, heldur en hið gagnstæða eins og úrtölumenn hafa haldið fram. Það er því öllum í hag að nýr LSH rísi, nýtt og stækkað þjóðarsjúkrahús við Hringbraut.