Samningsundirskrift heilbrigðisráðherra vegna nýbyggingar við Grensásdeild

23. ágúst 2022

Viðbygging við endurhæfingardeildina á Grensás glæsileg viðbót

Í dag undirritaði heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, samning Nýs Landspítala ohf. við Nordic Office of Architecture og EFLU verkfræðistofu, vegna fullnaðarhönnunar á nýbyggingu við Grensásdeild Landspítala. Um er að ræða viðbyggingu endurhæfingarhúsnæðis Grensásdeildar, en hið nýja húsnæði verður um 3.800 fermetrar að stærð og mun rísa að vestanverðu við núverandi aðalbyggingu. Hallgrímur Þór Sigurðsson undirritaði samninginn fyrir hönd Nordic Office of Architecture og Ólafur Ágúst Ingason fyrir hönd EFLU.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: “Hér er enn einn ánægjulegur áfangi í uppbyggingu betra húsnæðis fyrir Landspítala, sjúklinga og starfsmenn, og eftir þessu skrefi á Grensás hefur lengi verið beðið. Á þessum tímamótum er hægt að þakka mörgum, en ég vil þó sérstaklega taka fram þátt Hollvina Grensás sem hafa ötullega stutt við bakið á uppbyggingunni hér á Grensás, innan- og utanhúss. Grensásdeildin er sem endurhæfingarstaður gífurlega mikilægur þáttur í heilbrigðisstarfsemi þjóðarinnar, þess vegna er þetta skref okkur öllum mjög mikilvægt“.

 

Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf.: „Nordic Office of Architecture og EFLA verkfræðistofa urðu hlutskörpust í útboði vegna fullnaðarhönnunar, sem byggði á matslíkani og verði. Nú tekur við um 12 mánaða hönnunartími og eftir árið ættum við að sjá vinnuvélar mættar til að byrja á húsgrunni hússins, ef allar áætlanir ganga eftir. Fyrsta byggingarverkefni NLSH utan Hringbrautarsvæðisins þar sem allt er á fullri ferð“.

Á mynd frá vinstri: Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala, Ólafur Ágúst Ingason EFLU, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra,  Hallgrímur Þór Sigurðsson Nordic Office of Architecture og Guðrún Pétursdóttir Hollvinasamtökum Grensás.