Samstarfið milli háskólans og spítalans mikilvægt

11. október 2012

Samstarfið á milli Háskóla Íslands og Landspítalans er afar mikilvægt, bæði hvað varðar menntun og þjálfun nema, og vísindastarf og nýsköpun, að því er fram kom í máli Kristínar Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands, sem hélt erindi á samráðsþingi Nýs Landspítala sem haldið var í Hringsal Landspítala Háskólasjúkrahúss í gær. 

Kristín var annar frummælenda á þinginu og fjallaði þar um þýðingu Nýs Landspítala fyrir Háskóla Íslands og menntun heilbrigðisvísindastétta. Hinn frummælandinn var Stefán B. Veturliðason, aðalverkefnastjóri Nýs Landspítala, en hann fjallaði um stöðu verkefnisins nú. Gunnar Svavarsson, formaður stjórnar og stjórnar NLSH, setti þingið en um fimmtíu manns mættu og hlýddu á erindin.

Nálægðin við spítalann skiptir máli fyrir háskólann
Kristín benti á að nemar á heilbrigðisvísindasviði HÍ væru yfir tvö þúsund talsins, stundarkennarar um 900 og fastir starfsmenn um 300 en af þeim störfuðu um 100 bæði í háskólanum og á spítalanum. Samstarf spítalans og háskólans hefði verið afar farsælt og myndi eflast enn frekar með nýju byggingunum. „Samstarfið á milli þessara stofnana er mikið og þess vegna er nálægðin við spítalann mikilvæg.“ 

Deildir heilbrigðisvísindasviðs á einn stað 
Innan heilbrigðisvísindasviðs HÍ eru sex deildir en starfssemi þeirra er mjög dreifð í dag, að sögn Kristínar. Lengi hefði verið beðið eftir því að fá starfsemina á einn stað en mikil óhagkvæmni fylgi slíkri dreifingu.  Hagræði fáist af því að geta sameinað deildirnar í einu húsnæði nálægt spítalanum, hægt verði að samnýta rannsóknartæki og samgangur á milli stofnananna verði auðveldari. Í nýja húsnæðinu verði meðal annars bókasafn, rannsóknarstofur og skrifstofur og áhersla verði lögð á sameiginleg rými. „Við leggjum áherslu á að nemendur hinna ýmsu heilbrigðisvísindagreina hittist og kynnist fólki úr öðrum greinum en sínum eigin. Eins og staðan er núna getur verið að nemendur ólíkra deilda innan heilbrigðisvísindasviðs hittist aldrei á námstímanum.“

Megum ekki missa af lestinni 
Kristín benti á að Háskóli Íslands væri í 271. sæti á lista alþjóðlegu stofnunarinnar Times Higher Education yfir bestu háskóla í heimi og þar væru sautján þúsund háskólar metnir. Íslenskir nemendur í heilbrigðisvísindagreinum hefðu átt auðvelt með að komast í framhaldsnám við virta erlenda háskóla og háskólasjúkrahús og það mætti þakka samstarfinu á milli Landspítalans og háskólans. Hins vegar bæri að hafa í huga að alþjóleg samkeppni menntastofnana og innan vísindaheimsins væri alltaf að aukast og keppt væri um besta starfsfólkið. „Framfarir eru svo hraðar og við megum ekki missa af lestinni,“ sagði Kristín.  

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands og Stefán B. Veturliðason framkvæmdastjóri

Unnið að lokayfirferð gagna 
Stefán B. Veturliðason fór  yfir stöðu verkefnisins og hver væru næstu skref. Í máli hans kom fram að deiliskipulag fyrir svæðið væri í auglýsingu og athugasemdafrestur rynni út 20. október. Vonast væri til að það yrði afgreitt úr borgarstjórn fyrir jól. Gera mætti ráð fyrir því að Alþingi myndi fjalla um næstu skref verkefnisins á næstu vikum samhliða fjárlagagerð fyrir árið 2013. 
Forhönnun gatna, lóðar og veita væri lokið og gögn hefðu verið rýnd af óháðum aðila. Nú væri unnið að fullnaðarhönnun og gerð útboðsgagna en þeirri vinnu yrði lokið um áramót. Einnig væri forhönnun meðferðarkjarna, sjúkrahótels, rannsóknarhúss og bílastæðahúss lokið og unnið væri að lokayfirferð þeirra gagna.


Tæki endurnýjuð og eldra húsnæði endurbætt 
Stefán fór yfir tölur um stærð húsnæðis og kostnað þar sem fram kom að nýbyggingar kostuðu 45 milljarða, tækjabúnaður 7-12 milljarða og endurnýjun eldra húsnæðis 11 milljarða. Gera mætti ráð fyrir að kaup á tækjum myndi dreifast á allt að sjö ár en á meðal tækja sem gert er ráð fyrir að kaupa eru tæki sem byggja á nýrri lækningatækni eins og PET og SPECT skannar, annars konar lækninga- og rannsóknartæki, flutningskerfi, róbóta og rörpóst, sjálfvirkt lyfjaafgreiðslukerfi og húsbúnað, sjúkrarúm og öryggiskerfi.


Kostnaðartölur rýndar af óháðum aðila 
Ráðgjafar eru að leggja fram endurskoðaða kostnaðaráætlun við lok forhönnunar en allar kostnaðartölur verða rýndar af óháðum aðila, að því er fram kom í máli Stefáns. Hann benti á að þegar starfsemi spítalans flyttist yfir í nýju byggingarnar losnaði húsnæði upp á 35 þúsund fermetra sem mætti varlega áætlað meta á 7-12 milljarða.


Þá kom fram að forhönnun nýbyggingar Háskóla Íslands og Læknagarðs væri lokið og skilað með uppdráttum, kostnaðaráætlun og greinargerð. Nú væri hafin vinna við að skoða nýtingu eldra húsnæðis.