• New national hospital

Spurningum um Landspítala svarað

26. september 2012

Ingólfur ÞórissonGuðrún Bryndís Karlsdóttir skrifar langa grein í Morgunblaðið þann 20. september og kýs að titla sig sem verkfræðing með sérsvið í sjúkrahússkipulagi. 

Þegar Landspítali leitar eftir sérfræðingum í skipulagi sjúkrahúsa er gerð krafa um langa starfsreynslu.  Gerð er krafa um að viðkomandi hafi víðtæka þekkingu á allri starfsemi sjúkrahúsa, þörfum, tengslum og verkferlum. Sem dæmi má nefna að í forvali fyrir samkeppni um nýjan Landspítala þurfti sérfræðingur í skipulagningu sjúkrahúsa að hafa skipulagt meira en 500 rúma sjúkrahús til þess að fá fullt hús stiga. Það er sjúkrahús sem er af áþekkri stærð og Landspítali er núna. Slík starfsreynsla samsvarar 5-10 ára samfelldri vinnu. Nýútskrifaður byggingarverkfræðingur frá HÍ er fjarri því að uppfylla ofangreindar kröfur. 

Greinarhöfundur spyr hvar Landspítali sé með starfsemi.  Upplýsingar um starfsstaði eru mjög aðgengilegar á heimasíðu Landspítala.  Landspítali er í 100 húsum á 17 stöðum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið.  Til glöggvunar skal nefna að Landspítali er við Hringbraut, í Fossvogi, blóðbanki er við Snorrabraut, skrifstofur á Eiríksgötu, vörumóttaka og dauðhreinsun á Tunguhálsi, rannsóknastofur í sýkla- og veirufræði eru í Ármúla 1a, lífsýnasafn í Skógarhlíð og sjúkrahótel í Ármúla 9.  Með nýjum byggingum við Hringbraut sameinast öll þessi starfsemi og leiðir það til mikils hagræðis fyrir sjúklinga og starfsmenn og sparnaðar sem metinn er um 2,6 milljarðar á ári eða um 6-7% af árlegum rekstrarkostnaði Landspítala. 

Auk framangreindra staða er Landspítali með starfsemi á Landakoti, Kleppi, barna- og unglingageðdeild á Dalbraut, endurhæfing er á Grensási, líknardeild í Kópavogi, sjúkraskrársafn í Vesturhlíð, Hvítabandið er á Skólavörðustíg, þá er starfsemi á Laugarásvegi og Reynimel. 

Húsnæði Landspítala er flest komið til ára sinna, byrjað var að byggja Landspítala við Hringbraut árið 1926, sama ár og Melavöllurinn var vígður, og yngri legudeildarálmurnar á Hringbraut eru um 50 ára gamlar og uppfylla alls ekki kröfur sem nú eru gerðar til sýkingavarna og aðstöðu sjúklinga. Sama má segja um húsnæði Landspítala í Fossvogi.  Skurðstofur, gjörgæsla og myndgreining eru að stærstum hluta í elsta húsnæðinu á Hringbraut sem er nú yfir 80 ára gamalt.

Ég tel nauðsynlegt að leiðrétta Guðrúnu Bryndísi þegar hún gefur sér þær forsendur að ætlunin sé að leggja niður sjúkrahús á landsbyggðinni með endurnýjun húsnæðis Landspítala, því fer víðs fjarri.  Nýbygging Landspítala er til þess að stórbæta aðstöðu sjúklinga og starfsmanna og ná sparnaði í rekstrarkostnaði með sameiningu starfseminnar. Nýbyggingin hefur engin áhrif á hlutverk annarra sjúkrahúsa.

Allar skýrslur verkefnisins eru opinber gögn og eru aðgengilegar á  heimasíðu verkefnisins www.nyrlandspitali.is