• New national hospital

Segir að nýr spítali verði við Hringbraut

26. mars 2015

Í hádegisfréttum RÚV er haft eftir Páli Matthíassyni forstjóra Landspítala að

það komi ekki til greina að hafa nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut og að

bygging spítala á öðrum stað myndi tefja framkvæmdir um mörg ár.  Páll segir að í fullkomnum heimi væri hægt að hugsa sér betri stað en við Hringbraut nýtist eldri hús best við fyrirhugaðar byggingar.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans:

„Bæði hjúkrunarráð, læknaráð spítalans, starfsmannafélagið, nemar við heilbrigðisvísindasvið háskólans og síðan stór Gallupkönnun frá síðasta hausti sýndu allar meirihlutastuðning og afgerandi stuðning við þessa staðsetningu.“

Fréttina má sjá hér:

Rás 1 og 2 Hádegisfréttir 12:20

Segir að nýr spítali verði við Hringbraut

Forstjóri Landspítalans segir að það komi alls ekki til greina að hafa nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut. Yfirgnæfandi stuðningur sé við það. Bygging spítala á öðrum stað myndi tefja framkvæmdir um mörg ár. Könnun sem gerð var á lokaðri Facebooksíðu lækna á Landspítalanum sýnir að 44% sérfræðilækna vilja ekki hafa nýja spítalann við Hringbraut. 28% eru sæmilega sátt við staðarvalið og 17% ánægð. Sérfræðilæknir sagði í fréttum RÚV í gær að staðsetningin væri miðborgarfjandsamleg.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir könnunina í raun sýna að 45% lækna séu annað hvort ánægð eða sæmilega sátt við staðsetninguna. Það bendi ekki til afgerandi andstöðu. Þar að auki sé almennur stuðningur við að spítalinn rísi við Hringbraut.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans:

„Bæði hjúkrunarráð, læknaráð spítalans, starfsmannafélagið, nemar við heilbrigðisvísindasvið háskólans og síðan stór Gallupkönnun frá síðasta hausti sýndu allar meirihlutastuðning og afgerandi stuðning við þessa staðsetningu.“

Páll viðurkennir þó að hinum fullkomna heimi væri hægt að hugsa sér betri stað. Við Hringbraut nýtist hins vegar eldri hús best. Það spari fé, auk þess væri undirbúningur langt kominn.

Páll Matthíasson:

„Það er búið að samþykkja deiliskipulag, það er búið að hanna að allverulegu leiti þessar byggingar og það væri glapræði að fara í einhverja aðra vegferð þar sem þetta væri flutt í burtu því það myndi tefja málið um 10, 15 ár hið minnsta.“

Ástandið í húsnæðismálum Landspítalans sé þannig að nýjar byggingar þurfi að rísa innan 5 til 6 ára. Það sé einungis hægt við Hringbraut.

Páll Matthíasson:

„Við megum ekki missa móðinn, við verðum að halda áfram og berjast fyrir því að þessar byggingar sem munu til muna bæta öryggi og þjónustu í íslenskri heilbrigðisþjónustu rísi á Hringbraut og það verður að gerast í síðasta lagi 2020 eða 2021.“

Til stendur að hefja framkvæmdir við sjúkrahótel á þessu ári og ljúka hönnun á meðferðarkjarna nýja spítalans.