Skóflustunga tekin að nýju húsi heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands

4. júlí 2023

Í dag var tekin formleg skóflustunga vegna nýs húss Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands á lóð Landspítalans við Hringbraut. Húsið mun gjörbylta aðstöðu til kennslu og rannsókna í heilbrigðisvísindum en í því munu nær allar deildir Heilbrigðisvísindasviðs sameinast í nýrri rannsókna- og kennslubyggingu. Áætlað er að húsið verði risið á Hringbrautarsvæðinu í nágrenni nýs Landspítala síðla árs 2026 en heildarstærð þessa nýja húss Heilbrigðisvísindasviðs verður um 18.200 m2 þar af er nýbygging um 10.000 m2.

Fyrir hönd Háskóla Íslands tóku eftirfarandi skóflustunguna: Jón Atli Benediktsson rektor, Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs og nemarnir Sigríður Helga Kárdal Ásgeirsdóttir og Daníel Thor Myer, sem bæði eru í sviðsráði Heilbrigðisvísindasviðs og í stúdentaráði HÍ. Ásdís Halla Bragadóttir, ráðuneytissjóri háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, fyrir hönd Landspítala háskólasjúkrahúss.

Markmið þess að byggja hús Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands eru fjölmörg en byggingatæknilega tengjast þau því að færa á eins mikið af starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og mögulegt er undir einn hatt í návígi við Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut.

Til samræmingar og að verkefnið næði hratt og vel fram að ganga gerðu Háskóli Íslands og Nýr Landspítali ohf. með sér samstarfsamning í mars 2021 um verkefnastjórnun vegna áætlunargerðar og fyrirkomulags notendastuddrar hönnunar. Árið 2021 fór í að skipuleggja verkefnið með notendahópum hjá Háskóla Íslands sem eru ennþá að störfum samhliða hönnunarvinnu, en þetta fyrsta ár undirbjó Nýr Landspítali einnig og viðhafði útboð vegna þeirra hönnunarráðgjafa sem kæmu að verkinu. Í apríl 2022 var, í hátíðarsal Háskóla Íslands, skrifað undir samning við hönnunarteymið sem samanstendur af fyrirtækjum sem koma frá Verkís, JCA architecture og TBL sem eru Tark, Batteríið og Landslag. Þess má geta að nýlega veittu hlutaðeigandi ráðuneyti heimild þess efnis að samstarf Háskóla Íslands og Nýs Landspítala ohf. gæti haldið áfram út yfir allar verklegar framkvæmdir í samræmi við lög nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda.

Fullnaðarhönnun nýbyggingar lýkur nú í haust. Endurhönnun á Læknagarði lýkur sumarið 2024 og í kjölfarið lóðarhönnun. Þá er einnig verið að huga að breytingum í Eirbergi. Jarðvinna þessa húss, nýbyggingarinnar, mun ljúka í haust og á næsta ári 2024 verður húsið steypt upp en stefnt er að því að öllum verkframkvæmdum nýbyggingar ljúki í upphafi árs 2026 og þá hefjist framkvæmdir í Læknagarði. Allar þessa tímasetningar eru með fyrirvara um fjárheimildir og þátttöku í útboðum. Þess má geta að umhverfissjónarmið verða í hávegum höfð og nýbyggingin verður umhverfisvottuð samkvæmt BREEAM staðlinum líkt og aðrar nýbyggingar hér við Hringbraut.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands:

„Þetta er mikill gleðidagur, við höfðum sett okkur það markmið í stefnu skólans að ljúka við byggingu húsnæðis fyrir Heilbrigðisvísindasvið HÍ og því er það einkar ánægjulegt að finna þann upptakt sem er í verkinu. Á fáum sviðum starfar Háskóli Íslands jafnnáið með atvinnulífinu og á sviði heilbrigðismála og Landspítalinn er okkar stærsti og nánasti samstarfsaðili. Í húsinu sem hér mun rísa munum við mennta stóran hluta þess fólks sem sinnir afar brýnum störfum í heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Það er því afar gleðilegt að hér verður aðstaða til kennslu og rannsókna sambærileg við það sem best gerist á heimsvísu,“  

Frett-4.7-innri