Júnímánuður var hagstæður við uppsteypu meðferðarkjarnans

3. júlí 2023

Vel hefur gengið í júnímánuði við uppsteypu meðferðarkjarnans.

„Eins og undanfarna mánuði gengur uppsteypa meðferðarkjarnans vel og nú er búið að steypa þakplötur á stangir 1 og 2. Stangir 1 og 2 í meðferðarkjarna eru komnar í fulla hæð. Framkvæmdir ganga vel í stöngum 3, 4 og 5. Samhliða uppsetningu stálvirkis í millibyggingum er verið að slá upp og steypa stigahlaup í stigahúsum. Helstu verkþættir sem nú eru í gangi við uppsteypuna eru við mótauppslátt, járnabendingu, eftirspennu og uppsetningu stálvirkis. Vinna við tengiganga er í fullum gangi sem og við bílastæða- og tæknihúsið. Uppsteypa bílakjallara austan við meðferðarkjarna er hafin, þar sem verið er að steypa þrifalög og undirstöður. Reiknað er með að uppsteypu stanga og millibygginga meðferðarkjarna verði lokið á fyrsta ársfjórðungi 2024. Uppsetning útveggjaklæðningar stangar 1 hefst í október 2023,“ segir Árni Kristjánsson staðarverkfræðingur Nýs Landspítala.