Sögufrægt hús á lóð Landspítala

3. apríl 2024

Á Laufásvegi 81 við hlið Barnaspítala Hringsins stendur gamalt sögufrægt hús, Kennarahúsið, sem teiknað var af húsameistara ríksins, Einari Erlendssyni og byggt árið 1908. Húsið hýsti Kennaraskóla Íslands frá 1908 en árið áður hafði skólinn verið stofnaður með lögum. Kennaraskólinn var í húsinu allt til ársins 1962 þegar hann flutti í Stakkhlíð og árin eftir var kennd handavinna í húsinu auk þess sem Rannsóknastofnun uppeldismála hafði þar aðsetur.

Árið 1989 gaf íslenska ríkið Kennarasambandi Íslands húsið sem hófst handa við miklar endurbætur á því í samráði við Húsafriðunarnefnd. Kennarasambandið skilaði loks húsinu til íslenska ríkisins árið 2023 þegar það flutti í stærra húsnæði. Húsið er friðað að ytra útliti og við endurbætur á innra byrði hússins hefur herbergiskipan fengið að halda sér að mestu og stigi á milli hæða gerður upp í upprunalegri mynd. Nýr Landspítali ohf. hefur með höndum rekstur hússins vegna starfsemi og framkvæmda félagsins við Hringbraut.