Um áramót var búið að steypa um 20% af heildarmagni uppsteypu meðferðarkjarnans

28. janúar 2022

Uppsteypuverkefnið á meðferðarkjarna er að ganga vel, en aðalverktaki uppsteypu verksins er Eykt hf. Um áramót var búið að steypa um 12.000 m3 sem er rúmlega 20% af heildarmagni sem áætlað er í meðferðarkjarnann

“Vinna við uppsteypu veggja og súlna efri kjallara hófst um miðjan janúar,” segir Eysteinn Einarsson staðarverkfræðingur hjá NLSH.

Helstu verkþættir sem nú eru í gangi við uppsteypuna eru áframhaldandi vinna við mótauppslátt, járnabendingu, jarðskaut, fyllingar og lagnir í grunni.

Vinna við undirstöður og botnplötur í neðri kjallara er mjög langt komin og áætlað að henni ljúki í byrjun febrúar. Samhliða er vinna við jarðskaut, fyllingar og lagnir í grunni í fullum gangi. Vinna við undirstöður í efri kjallara er hafin.

Í neðri kjallara er vinna við veggi og súlur í fullum gangi. Frágangur kjallaraveggja sem og fyllingar að þeim er einnig hafinn.

“Vinna við loftaplötur yfir neðri kjallara stendur einnig yfir,” segir Eysteinn.